Kristrún Ólafsdóttir sendi mér tölvupóst – sagðist hafa rekist á þessa gátu á blaði hjá sér: Fögur var dóttir bóndans á Borg. Bjó hún um skeið í öskustó. Hólabiskupsins svæfði sorg. Sú af lærdómi mat til bjó. Ekki veit ég eftir hvern gátan er.

Kristrún Ólafsdóttir sendi mér tölvupóst – sagðist hafa rekist á þessa gátu á blaði hjá sér:

Fögur var dóttir bóndans á Borg.

Bjó hún um skeið í öskustó.

Hólabiskupsins svæfði sorg.

Sú af lærdómi mat til bjó.

Ekki veit ég eftir hvern gátan er. En hún spurði líka um fyrripart vísu en „þar er greinilega verið að lýsa stjórnsamri konu“. Því er best svarað með því að vísa í ljóðabók Steingríms Eyfjörð Einarssonar læknis sem Sveinn Jónsson frá Ytra-Kálfskinni tók saman og gaf út:

Höfundur kvað oft kersknivísur um þau hjónin Þormóð Eyjólfsson konsúl og Guðrúnu Bjarnadóttur frá Kornsá en hún var mikill kvenskörungur og fylgdi Framsókn fast að málum.

Varla fljótt að velli hnígur

valda lyftir merkinu.

Ef hundur upp við húsvegg mígur

hún þarf að stjórna verkinu.

Nú er af sem áður var

alltaf fyrir kosningar.

Margra karla maki var

mannveiði-kona Framsóknar.

Eftir dauða Guðrúnar var sagt að hann hefði ort eftirfarandi grafskrift:

Víst er hún að velli hnigin

valda ei lyftir merkinu.

Húsveggur hver af hundi útmiginn

hér stjórnar enginn verkinu.

Og um Þormóð konsúl:

Tjöldin hrapa, kólnar kinn,

kviknar gapi frægur.

Völdum tapar Móði minn

myndast skapadægur.

Hér er meira um Þormóð:

Þormóðs kirna þrælstjórnar

þykir við að neðan.

Hafa frillur Framsóknar

farið illa með 'ann.

Velsæmis úr hoppar höftum

hefur upp níð og skammast frekt.

Til að halda heilsu og kröftum

honum er þetta nauðsynlegt.

Einhverju sinni á unglingsárunum var Steingrímur háseti á „Talismann“ en þá var skipstjóri á skipinu Jón Halldórsson. Er skipið sigldi inn í fjarðarkjaft Eyjafjarðar kom Steingrímur niður í káetu til skipstjóra og segir:

Vel blés Kári voðir í

vilja eftir þínum.

Kátir erum komnir í

kjaft á nafna mínum.

Varð þá Jóni hálfhverft við og sagði: „A – hvað, erum við komnir inn á Steingrímsfjörð?!!“

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is