Stuð Permaband hélt uppi fjörinu.
Stuð Permaband hélt uppi fjörinu. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Tölvuleikjaframleiðandinn CCP tjaldaði öllu til á lokakvöldi EVE Fanfest sem fór fram í Hörpu um helgina. „Við elskum að fara alla leið í þessu og vorum með frekar tryllta sýningu á lokakvöldinu.

Tölvuleikjaframleiðandinn CCP tjaldaði öllu til á lokakvöldi EVE Fanfest sem fór fram í Hörpu um helgina. „Við elskum að fara alla leið í þessu og vorum með frekar tryllta sýningu á lokakvöldinu. Það voru eldvörpur, leysigeislar og sprengjur,“ segir Steinþór Helgi Arnsteinsson, viðburðastjóri CCP.

EVE Fanfest er eins konar ráðstefna fyrir spilara tölvuleiksins EVE Online sem er haldin á hverju ári. Hátíðin inniheldur fyrirlestra tengda leiknum ásamt viðburðaríkri skemmtidagskrá. Dagskráin endaði á risastórri veislu á laugardagskvöldinu. Í ár var hljómsveitin Permaband fengin til að spila, en hún sér meðal annar um tónlistina fyrir tölvuleikinn. Þá þeytti DJ Kristian Nairn, betur þekktur sem Hodor úr Game of Thrones, skífum.

Að sögn Steinþór voru um það bil tvö þúsund manns á hátíðinni í ár. „Þetta voru um þúsund spilarar, 70 erlendir blaðamenn, samstarfsaðilar fyrirtækisins og starfsmenn að utan. Í heildina voru þetta um 2.000 manns,“ segir Steinþór. CCP bauð gestum og lét gera 20 metra langa afmælisköku á hátíðinni í ár í tilefni af 20 ára afmæli fyrirtækisins.

Hlutverkaleikur í Hörpu

Í ár var gestum einnig boðið að taka þátt í LARP (e. live action roleplay) sem er hlutverkaleikur, en leikurinn fór fram í Hörpu alla þrjá dagana. „Það var framleiðsluteymi sem sá um LARP-leikinn fyrir okkur. Framleiðsluteymi sem hefur meðal annars unnið til Emmy-verðlauna og sérhæfir sig í svoleiðis viðburðum,“ segir Steinþór. Í fyrra var keppt í Eve Valkyrie og var það í fyrsta skipti í heiminum sem tölvuleikjakeppni fór fram í sýndarveruleika. Í ár fór ekki fram skipulögð keppni í Valkyrie en gestir gátu keppt sín á milli í EVE Online, Gunjack og Gunjack II, sem allt eru leikir sem CCP hefur framleitt.

mhj@mbl.is