Herdís Dröfn Fjeldsted
Herdís Dröfn Fjeldsted
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Samkomulag hefur náðst um að Steinasalir ehf. kaupi belgíska félagið Gadus af Icelandic Group. Greint var frá þessu á heimasíðu Framtakssjóðs Íslands á föstudag, en framtakssjóðurinn á 100% hlutafjár í Icelandic Group.

Samkomulag hefur náðst um að Steinasalir ehf. kaupi belgíska félagið Gadus af Icelandic Group. Greint var frá þessu á heimasíðu Framtakssjóðs Íslands á föstudag, en framtakssjóðurinn á 100% hlutafjár í Icelandic Group. Morgunblaðið sagði frá því í janúar að Icelandic Group hygðist selja Gadus.

Í tilkynningu segir að Gadus sé leiðandi í framleiðslu, sölu og dreifingu á ferskum sjávarafurðum. Félagið selur einkum þorsk og lax til smásala og heildsala í Belgíu. Starfsmenn eru um 130 talsins og fara árlega um 7.000 tonn af vöru í gegnum verksmiðju fyrirtækisins. Námu tekjur Gadus ríflega 83 milljónum evra árið 2016, jafnvirði um 9,9 milljarða króna á núverandi gengi.

Að baki Steinasölum standa Sigurður Gísli Björnsson hjá Sæmarki-sjávarafurðum, Akur fjárfestingar, Hjalti Halldórsson og Bjartmar Pétursson hjá Fishproducts Iceland, ásamt öðrum meðfjárfestum úr íslenskum sjávarútvegi.

Í tilkynningu Framtakssjóðs segir að Icelandic Group hafi keypt Gadus árið 2012 með það að markmiði að opna nýtt markaðssvæði fyrir íslenskar sjávarafurðir. „Við erum því afar ánægð með þessa niðurstöðu og teljum að aðkoma íslenskra aðila í sjávarútvegi að Gadus sé mjög jákvætt skref fyrir félagið og gefi því enn frekari tækifæri að efla ímynd og verðmæti íslenskra sjávararfurða í Mið-Evrópu,“ segir Herdís Dröfn Fjeldsted, stjórnarformaður Icelandic Group og framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands.

Sigurður Gísli Björnsson, fulltrúi Steinasala, segir markmið fjárfesta með kaupunum að tryggja íslenskum sjávarútvegi órofna virðiskeðju frá veiðum til neytenda. ai@mbl.is