Móttaka S. Björn Blöndal, formaður borgarráðs Reykjavíkur, afhendir Friðleifi Einarssyni skipstjóra stein til að setja upp í brú nýja skipsins.
Móttaka S. Björn Blöndal, formaður borgarráðs Reykjavíkur, afhendir Friðleifi Einarssyni skipstjóra stein til að setja upp í brú nýja skipsins. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Skuttogarinn Ásbjörn RE 50, sem nýja skipið Engey RE 91 leysir af hólmi í lok mánaðarins, hefur landað um 227 þúsund tonnum í 1.542 löndunum. Aflaverðmætið gæti verið um 40 milljarðar króna að núvirði.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Skuttogarinn Ásbjörn RE 50, sem nýja skipið Engey RE 91 leysir af hólmi í lok mánaðarins, hefur landað um 227 þúsund tonnum í 1.542 löndunum. Aflaverðmætið gæti verið um 40 milljarðar króna að núvirði. Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda, rifjaði þetta upp á föstudag er formlega var tekið á móti Engeynni. Í þessu samhengi má nefna að heildaraflamark í þorski á þessu fiskveiðiári er 244 þúsund tonn.

Sextán „gamlir“ ísfisktogarar

Friðleifur Einarsson hefur verið skipstjóri á Ásbirni og fer hann ásamt áhöfn sinni yfir á Engey. Ásbjörn fer í síðasta túr sinn í lok mánaðarins þegar allur búnaður verður kominn um borð í nýja skipið. Ásbjörn er til sölu og hafa HB Granda borist fyrirspurnir.

Vilhjálmur sagði í ræðu við athöfnina á föstudag að honum teldist til að nú væru gerðir út 16 ísfisktogarar af hefðbundinni stærð, eða um 50 metra og lengri. „Þeir eru allir smíðaðir á síðustu öld, sá yngsti þeirra eða nýjasti er smíðaður 1989 en helmingur þeirra er smíðaður á árunum 1972-1978. Það hlaut því að koma að endurnýjun á þessum undirstöðuatvinnutækjum okkar Íslendinga,“ sagði Vilhjálmur.

Mikil endurnýjun í flotanum

Á þessu ári á HB Grandi von á tveimur öðrum ísfisktogurum; Akurey er væntanleg í júní og Viðey í desember. Á þessu ári eru fjórir nýir ísfisktogarar væntanlegir frá Cemre í Tyrklandi til ÚA, Samherja og Fisk Seafood. Í Kína er verið að smíða ísfisktogara fyrir Vinnslustöðina í Vestmannaeyjum og Hraðfrystihúsið – Gunnvöru í Hnífsdal, Breka VE og Pál Pálsson ÍS. Vonast er til að skipin verði afhent í þessum mánuði, en heimsigling tekur síðan um tvo mánuði.

Verið er að smíða stóran frystitogara fyrir Ramma í Fjallabyggð, Sólberg ÓF 1, í Tersan-skipasmíðastöðinni í Tyrklandi. Þá hefur HB Grandi ákveðið að setja í útboð smíði nýs 81 metra frystitogara.

Ásbjörn, sem Engey leysir af hólmi, var smíðaður árið 1978 og vantar því eitt ár í fertugt. Vilhjálmur sagði að Ásbjörn hefði reynst afburða vel og þrátt fyrir að vera með þeim minnstu í þessum hóp togara hefði hann iðulega verið meðal þeirra aflahæstu, reyndar þrettán sinnum aflahæsti ísfisktogari landsmanna, síðast árið 2014.

Flott áhöfn sem fiskar vel

„Forsendan er flott áhöfn sem fiskar vel og kann til verka. Fyrstu tveir túrarnir í kjölfar nýafstaðins verkfalls tóku t.d. um 50 klukkustundir hvor frá höfn í höfn og aflinn fullfermi, eða 120 tonn af blönduðum afla, í hvorri veiðiferð. Slíkur afli hefur reyndar ekki talist til sérstakra tíðinda þegar Ásbjörn hefur verið annars vegar.

Það er í raun með ólíkindum hversu mikinn afla áhöfnin hefur ráðið við að koma um borð í Ásbjörn því vinnuaðstaða er vægast sagt bágborin miðað við kröfur okkar í dag. Það er með mikilli ánægju og eftirvæntingu sem við tökum í notkun nýtt skip með byltingarkenndum nýjungum og mikilli fyrirmyndar aðstöðu fyrir áhöfn,“ sagði Vilhjálmur.