[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fimleikar Skúli Unnar Sveinsson skuli@mbl.

Fimleikar

Skúli Unnar Sveinsson

skuli@mbl.is

„Ég er mjög ánægur með mótið,sérstaklega auðvitað með fyrri daginn þegar ég endurheimti Íslandsmeistaratitilinn í fjölþraut,“ sagði Valgarð Reinhardsson, fimleikamaður úr Gerplu, eftir að hann hafði lokið keppni á einstökum áhöldum á Íslandsmótinu í áhaldafimleikum í Laugardalshöll í gær.

Keppnin í fjölþraut á laugardaginn endaði með sigri Valgarðs, sem hlaut 76,65 stig. Félagi hans í Gerplu, Eyþór Örn Baldursson, hlaut 72,00 stig og Jón Sigurður Gunnarsson úr Ármanni varð þriðji með 71,90 stig.

„Það gekk mjög vel á laugardaginn, ég datt reyndar á bogahestinum. Í dag reyndi ég talsvert erfiðari æfingar, sem virkuðu misvel. Ef það gengur upp hjá manni lítur það mjög vel út en ekki eins vel þegar það klikkar,“ sagði meistarinn og sagði að þessari nýju æfingar hans væru alveg að smella saman.

„Ég mun örugglega reyna einhverjar þeirra á EM en það verður að koma í ljós hversu mikið,“ sagði hann, en EM er um næstu helgi í Rúmeníu.

Hann sigraði á svifrá í gær en Eyþór Örn sigraði í gólfæfingum og í stökki. Arnþór Daði Jónsson úr Gerplu sigraði á bogahesti, Jón Sigurður Gunnarsson úr Ármanni í hringjum og Stefán Ingvarsson úr Björk í tvíslá.

Keppnin í kvennaflokki á laugardaginn var gríðarlega jöfn en þar sigraði Irina Sazonova með 48,933 stig, Dominiqua Alma Belány úr Ármanni varð önnur með 48,866 stig og Agnes Suto úr Gerplu þriðja með 48,616 stig. Jafnara gat það vart verið.

„Ég reyndi dálítið erfiðari æfingar sem eg er að reyna að fínpússa fyrir EM eftir viku og sumt gekk, annað ekki,“ sagði Irina, ánægð með annan Íslandsmeistaratitil sinn í fjölþraut.

Í gær sigraði hún í stökki og á slá en Dominiqua sigraði á tvíslá og í gólfæfingum þannig að Ármannsstúlkurnar skiptu þessu á milli sín.