ÁSGARÐUR Sindri Sverrisson sindris@mbl.is Er Grindavík með lið sem getur orðið Íslandsmeistari í körfubolta karla 2017? Þar til fyrir 10 dögum held ég að flestir hefðu svarað þessari spurningu neitandi.

ÁSGARÐUR

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

Er Grindavík með lið sem getur orðið Íslandsmeistari í körfubolta karla 2017? Þar til fyrir 10 dögum held ég að flestir hefðu svarað þessari spurningu neitandi. Eftir að Grindvíkingar niðurlægðu hreinlega Stjörnuna á laugardag, með 104:69-sigri í Garðabæ, og sópuðu þar með sterku liði Stjörnunnar út, 3:0, er ekki hægt annað en að svara henni með skýru jái.

Grindavík hefur reyndar eytt allri leiktíðinni í að mótmæla hrakspám innan vallar, og sú mótmælaganga náði hámarki í Garðabænum á laugardag. Þvílík frammistaða. Varnarleikurinn dugði til að láta alla leikmenn Stjörnunnar líta hræðilega út, og í sókninni hittu Grindvíkingar að vild. Hittni Grindavíkur í einvíginu öllu var reyndar frábær, en hún var lygileg á laugardaginn. Alls fóru 55% af 31 þriggja stiga skoti liðsins í körfuna, og menn hreinlega hlógu að því hve auðveldlega skotin gengu.

Dagur Kár Jónsson lék frábærlega í þessu einvígi gegn uppeldisfélagi sínu, líkt og Lewis Clinch sem var einmitt í Grindavíkurliðinu síðast þegar það komst í úrslit, árið 2014. Grindavík getur oftast stólað á Ólaf, Þorleif og Ómar, og á laugardaginn bættist svo senuþjófurinn Þorsteinn Finnbogason við hópinn, en hann var gríðarlega vel stemmdur frá upphafi, reif til sín mikilvæg fráköst og skoraði alls 22 stig.

Stjarnan stimplaði sig inn í sumarfrí áður en fyrri hálfleik var lokið á laugardaginn. Uppgjöfin og vonleysið var algjört. Eini maður liðsins sem hafði verið virkilega góður í einvíginu, Hlynur Bæringsson, átti martraðarleik á sinn mælikvarða og enginn félaga hans sýndi því áhuga að taka við keflinu.