Bronsleikurinn Úlfar Jón Andrésson á hér í höggi við sóknarmann Serbíu í leiknum í Galati í gær en Dennis Hedström er á milli stanganna.
Bronsleikurinn Úlfar Jón Andrésson á hér í höggi við sóknarmann Serbíu í leiknum í Galati í gær en Dennis Hedström er á milli stanganna. — Ljósmynd/Sorin Pana
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í GALATI Andri Yrkill Valsson yrkill@mbl.is Það var sárt að horfa á íslensku landsliðsmennina skauta af velli að loknum lokaleik sínum í A-riðli 2. deildar HM í íshokkí sem lauk í Galati í Rúmeníu í gær.

Í GALATI

Andri Yrkill Valsson

yrkill@mbl.is

Það var sárt að horfa á íslensku landsliðsmennina skauta af velli að loknum lokaleik sínum í A-riðli 2. deildar HM í íshokkí sem lauk í Galati í Rúmeníu í gær. Það var sárt að horfa upp á frammistöðuna í 6:0-tapi fyrir Serbíu og það var sárt að sjá liðið missa af tækifærinu að vinna til verðlauna eins og raunin hefði verið með sigri. En sárast var að sjá Jónas Breka Magnússon, einn helsta drifkraft íslenska landsliðsins frá upphafi, enda landsliðsferilinn á þennan hátt.

Eins og lokatölurnar gefa til kynna var íslenska liðið einfaldlega ekki tilbúið í þennan leik. Kannski var of mikið undir, en andlega hliðin var greinilega brothætt og þurfti lítið til þess að bresta. Að fá sannkallað aulamark á sig strax á fjórðu mínútu þegar Dennis Hedström kom úr markinu en missti af pökknum gerði það að verkum að leikmenn misstu hausinn og komu aldrei til baka eftir það. Niðurstaðan stórtap í leik þar sem allt var undir.

Ísland hafnaði því í 5. sæti á HM þriðja árið í röð, en síðustu tveir leikirnir á mótinu skyggja á annars flotta frammistöðu liðsins. En á þessu móti var sannarlega lagður grunnurinn að framtíðinni og þeir sjö nýliðar sem fengu eldskírn sína hafa öðlast mikilvæga reynslu. Þó að sárt sé að kveðja burðarása eins og Jónas Breka, sem skilur eftir sig stórt skarð innan hópsins, er huggun harmi gegn að næsta kynslóð hefur fengið nasaþefinn af því að halda uppi merkjum Íslands á stóra sviðinu.

Silfurlið síðasta árs féll

Það er ljóst að sögulegi sigurinn gegn Rúmeníu á fimmtudag tók sinn toll og leikmenn náðu aldrei sama krafti að honum loknum. Kannski voru einhverjir saddir eftir að hafa náð þó þeim árangri að vinna heimaþjóðina í fyrsta sinn, en það var í það minnsta ekkert eftir til þess að gefa þegar verðlaun voru í húfi í lokaleiknum.

Að spila fimm leiki á sjö dögum tekur vissulega á, en það er ekkert bundið við íslenska liðið. Það sem gerði hlutina hins vegar enn erfiðari var að tefla fram jafn fáum varnarmönnum og raunin var hjá Íslandi á þessu móti. Það var eitt helsta áhyggjuefnið fyrir þessa ferð og sýndi sig í síðustu tveimur leikjunum.

Rúmenía stóð uppi sem sigurvegari í riðlinum á heimavelli og endurheimtir því sæti sitt í B-riðli 1. deildar á næsta ári. Silfurlið síðasta árs, Spánn, féll hins vegar í B-riðil 2. deildar, sem þykja nokkur tíðindi. Ástralía, nýliði í ár, vann silfurverðlaun eftir vaska framgöngu á þessu móti og Serbarnir tryggðu sér bronsið með sigrinum í gær.

Breki á miklar þakkir skildar

Íslenska liðið heldur heim í dag með mikilvæga reynslu í farteskinu sem vonandi verður hægt að móta fyrir næsta ár. Því miður eru landsliðsverkefnin nánast eingöngu bundin við þessi heimsmeistaramót á hverju vori og því langt þar til hægt er að sýna sitt rétt andlit í alvöru leik. Það væri hins vegar gaman ef hægt væri að kveðja Jónas Breka á heimavelli og heiðra hann fyrir framlag sitt síðustu tvo áratugina eða svo. Hann á miklar þakkir skildar.