Uppistand Félagarnir Jóhannes Kristjánsson í karakter Ólafs Ragnars Grímssonar og Guðni saman í Salnum.
Uppistand Félagarnir Jóhannes Kristjánsson í karakter Ólafs Ragnars Grímssonar og Guðni saman í Salnum. — Morgunblaðið/Stella Andrea
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Það er létt yfir salnum og mikið hlegið,“ segir Guðni Ágústsson, fyrrverandi ráðherra.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Það er létt yfir salnum og mikið hlegið,“ segir Guðni Ágústsson, fyrrverandi ráðherra. Hann og Jóhannes Kristjánsson fara nú um landið með skemmtidagskrána Eftirherman og orginalinn og á laugardagskvöld voru þeir félagar í Salnum í Kópavogi. Það var 6. skemmtun þeirra og hafa allar verið vel sóttar. Næstkomandi miðvikudagskvöld, 12. apríl, verða þessi gleðimenn aftur í Salnum, svo og að kvöldi sumardagsins fyrsta og svo 27. apríl. Einnig eru fleiri sýningar í Landnámssetrinu í Borgarnesi á dagskrá og meira eftir atvikum.

Eins og bræður

„Við höfum jafnan fengið fullt hús. Fólk fær útrás í hlátrinum og segist ekki hafa skemmt sér vel jafn lengi, sem eru mikil meðmæli,“ segir Guðni Ágústsson. Fyrirkomulag skemmtana þessara er þannig að Guðni og Jóhannes eru sitt á hvað á sviðinu – þar sem sá fyrrnefndi segir sögur en hinn bregður sér í líki ýmissa manna. Saman koma þeir svo í lokin – og hafa þá jafnan verið klappaðir fram. „Við Jóhannes erum eins og bræður, höfum lengi þekkst og þessar kvöldstundir eru afar skemmtilegar,“ segir Guðni.

Benedikt bætist í hópinn

Jóhannes Kristjánsson segist afar ánægður með hvernig til takist á samkomum þeirra Guðna. Þar fylgi þeir ákveðnum þræði sem ákveðinn sé fyrir fram. Svo bætist alltaf eitthvað nýtt við – rétt eins og atburðir líðandi stundar gefi tilefni til. Meðal þekktra fyrirmynda Jóhannesar eru Ólafur Ragnar Grímsson, Halldór Blöndal, Alfreð Þorsteinsson og Vilhjálmur Egilsson svo nokkrir séu nefndir. Á skemmtunum nú hefur Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra bæst í þennan hóp – og hefur hann á skemmtununum fjallað um hagfótinn og vegi í völundarhúsi viðskiptalífsins. Einnig hefur sést til sjónvarpsmannsins breska David Attenborough, sérfræðings í náttúruvísindum, en í gervi Attenborough hefur Jóhannes sagt frá sköpunarsögu Guðna Ágústssonar, sem er maður margra alda.