Sveinn Sæmundsson fæddist að Vestri-Leirárgörðum í Leirársveit 9. apríl 1923. Hann lést á Hjúkrunarheimili Hrafnistu að Boðaþingi 26. mars 2017.

Foreldrar hans voru Karólína Stefánsdóttir, f. 1891, d. 1986, og Sæmundur Eggertsson, f. 1896, d. 1969. Systkini hans eru Auður Ásdís, f. 1925, og Eggert, f. 1928, d. 1990. Sveinn var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Hrefna Guðmundsdóttir en eftirlifandi eiginkona hans til 59 ára er María Jónsdóttir. Börn: 1) Guðmundur Ágúst, f. 1946, d. 1947. 2) Kolbrún, f. 1948, maki Ævar Pálmi Eyjólfsson. Börn; Sólveig, Eyjólfur Pétur og Ævar Pálmi. Barnabörn eru 11 og tvö barnabarnabörn. 3) Erla, f. 1950, maki Pétur J. Eiríksson. Börn; Jóhanna Dögg og Freyja. Eitt barnabarn. 4) Goði, f. 1958, maki Anna K. Marteinsdóttir. Börn; Guðrún Rína, Styrmir og Marta. Barnabörn eru 5. 5) Sindri, f. 1962, maki Sigríður Einarsdóttir. Börn; Linda Mjöll, Fannar og Íris Fanney. Barnabörn eru 4.

Sveinn ólst upp á Akranesi og nam rafvélavirkjun í Iðnskólanum og hjá Bræðrunum Ormsson. Að námi loknu starfaði hann um tíma sjálfstætt en réðst fljótlega til Eimskipa og sigldi á Fossunum. Hann dvaldi um árabil við nám og störf í Vancouver í Kanada og hjá AEG í Hamborg. Eftir heimkomu starfaði hann sem blaðamaður og ljósmyndari á Tímanum og síðar á Alþýðublaðinu. Árið 1957 hóf Sveinn starf sem blaðafulltrúi hjá Flugfélagi Íslands. Við sameiningu Loftleiða og Flugfélags Íslands og stofnun Flugleiða 1973 var Sveinn ráðinn blaðafulltrúi Flugleiða, starf sem hann gegndi í tæp 30 ár en síðustu árin hjá Flugleiðum söðlaði Sveinn um og gegndi starfi markaðsstjóra innanlandsflugs. Sveinn skrifaði fjölda greina og viðtala í blöð og tímarit en jafnframt var hann mikilvirkur rithöfundur og eftir hann liggja alls 13 bækur sem komu út á árunum 1965-1992. Vikulegir viðtalsþættir Sveins í Ríkisútvarpinu nutu einnig mikilla vinsælda. Sveinn var um árabil formaður Rithöfundasambands Íslands, forseti Skotsambands Íslands og formaður stangveiðifélagsins Ármanna. Sveinn lék um árabil á trompet með Lúðrasveitinni Svani.

Jarðsett var í kyrrþey að ósk hins látna.

Ég var ungur blaðamaður á Morgunblaðinu þegar ég kynntist Sveini Sæmundssyni. Sveinn var þá blaðafulltrúi Flugfélags Íslands. Blaðamenn þurfa að heyra í mörgum og kynnast því ýmsum gerðum manna. Í suma vildi maður helst ekki þurfa að hringja aftur. Sveinn var ekki í þeim hópi, þvert á móti. Það var alltaf gott að leita til Sveins um fréttir úr fluginu. Hann tók manni eins og gömlum vini, alltaf hjálpsamur og alltaf áhugasamur. Hann vildi auðvitað að vel væri skrifað um Flugfélagið en honum virtist ekki síður mikilvægt að frá honum færi maður með góða frétt. Báðir urðu að fá sitt út úr samtalinu.

Ekki vissum við þá að kynni okkar ættu eftir að verða meiri og nánari. Nokkrum árum eftir fyrsta samtal okkar varð ég tengdasonur Sveins og enn nokkrum árum síðar urðum við vinnufélagar hjá Flugleiðum og störfuðum þar saman um árabil.

Segja má að starfsferill Sveins hafi ekki verið oftroðin slóð. Hann var rafvirki sem fór á sjó og sigldi sem slíkur í nokkur ár á fossum Eimskipafélagsins. Hann fékk áhuga á ljósmyndun og tók víða myndir, sem skilaði honum í blaðamennsku á Tímann. Þaðan lá leiðin til Flugfélagsins og síðar Flugleiða, þar sem hann varð forstöðumaður kynningardeildar. Þar var að mörgu að hyggja og við marga að eiga samskipti, innanlands sem utan. Við vorum ekki alltaf vinsælasta félagið á Íslandi en alltaf tókst Sveini að passa upp á orðsporið. Afburða kurteisi, ljúfmannleg og stráksleg framkoma og elegans í klæðaburði sáu til þess.

Sveinn var mikill áhugamaður um útivist og slark og víða fóru þau hjónin, hann og María Jónsdóttir, á Láka, sem var Volkswagen rúgbrauð og gistiheimili þeirra í náttúrunni. Oftar en ekki voru flugustangir með í för. Ég get ekki státað af fallegum fluguköstum en má þakka Sveini það sem ég þó kann.

Sveinn var sögumaður og hafði gott vald á listinni að segja frá, ekki síst í rituðu máli. Sá fjöldi bóka sem eftir hann liggur ber því gott vitni. Þar má einnig sjá að þótt Sveinn hafi lengst af starfað við flug togaði sjórinn. Þaðan fékk hann hugmyndir og efni, sem hann gerði að ljóslifandi ævintýri en oftar en ekki harmleik í hugum lesenda sinna.

Það var gott að kynnast Sveini og fyrir þau kynni er ég þakklátur.

Pétur J. Eiríksson.

Sveinn tengdafaðir minn er lagður af stað í sína hinstu för.

Ferðalög voru aðaláhugamál hans hvort sem var innanlands eða utan og ferðaðist hann víða, en áhugamál hans voru mörg í gegnum tíðina.

Hann var frábær sagnamaður og var oft gaman að hlusta á hann segja frá gamalli tíð og að fara með vísur, en þar var hann ótrúlegur og mundi hvert orð.

Svenni var léttur í lund en gat verið fastur fyrir ef svo bar undir.

Hann var afskaplega félagslyndur og hafði mjög mikla ánægju að borða góðan mat með fjölskyldunni og fá sér gott vínglas með. Síðustu ár hafði hann þann vana að lyfta höndum og segja um leið „yndislegt ... yndislegt“ en þá var minn ánægður, og er þetta nú orðið að viðkvæði hjá barnabörnum og fólkinu hans þegar lífið er skemmtilegt.

Svenni var „ríkur“ maður, átti fjögur börn, 11 barnabörn, 21 barnabarnabarn og tvö langalangafabörn.

Ég gleymi því ekki heldur hversu vel þau hjón tóku mér og Rínu þegar við komum inn í fjölskylduna og varð hún strax eitt af barnabörnunum. Er ég ævinlega þakklát þeim fyrir það.

Fjölskyldan átti saman fallegt hús austur á Héraði þar sem oft var dvalið á sumrin við veiði, göngur, sól og grill. Það var góður tími.

Við Svenni áttum sama „áhugamálið“ til margra ára, þ.e.a.s. vinnustað okkar Icelandair, en við gátum setið tímunum saman og spjallað um félagið okkar.

Hann var ákaflega heilsuhraustur maður fram á níræðisaldurinn, ern í hugsun og notaði hvorki gleraugu né heyrnartæki til síðasta dags.

Eftir 37 ár sem tengdadóttir Svenna fann ég sterka taug á milli okkar þegar ég hélt í hönd hans á banabeðinum. Því mun ég ekki gleyma.

Far í friði, kæri Svenni.

Anna K. Marteinsdóttir.

Hann kom með nýja strauma inn í eyfirsku fjölskylduna, þessi glæsilegi og sigldi maður – Sveinn Sæmundsson. Saman voru hann og María föðursystir fallegasta parið sem Eyrarpúki hafði séð. Þau komu með heiminn með sér í farteskinu norður til Akureyrar, eins og kvikmyndastjörnur, og með þeim fylgdu elskulegir synir þeirra, Goði og Sindri, frændur okkar og vinir. Já, oft var glatt á hjalla í Grænugötu 12, þegar stórfjölskyldan kom þar saman hjá afa og ömmu. Góðar minningar eru um þær hátíðarstundir og það fólk sem þar kom saman, en nú hefur margt kvatt – síðast Sveinn Sæmundsson í hárri elli.

Starf blaðafulltrúa Flugfélags Íslands, og síðar Flugleiða, hafði yfir sér ævintýrablæ: að ferðast um heiminn, hitta spennandi fólk, kynna Ísland. Og Sveinn Sæmundsson var einskonar sendiherra hins unga ferðamannalands, sem á þotuöld komst í stöðugt nánara samband við umheiminn. Það var ekki alveg sami glamúrinn sem fylgdi því að vera til sjós eða salta síld á plani. Hér var opnuð sýn í aðra veröld. En auðvitað var þessi fágaði heimsmaður í grunninn duglegur alþýðupiltur af Akranesi sem hafði aflað sér fjölbreyttrar reynslu og menntunar. Hann sigldi um heiminn á kaupskipum, starfaði og stundaði nám í útlöndum. Spennandi þóttu manni sögur af gullleit og villidýraveiðum í óbyggðum Kanada. Já, hann var sögumaður af guðs náð, skrifaði af þekkingu og virðingu margar bækur um sjómannslífið og háskann í hafinu. Heimur flugsins var eðlilegt framhald af veröld farmannsins.

Það var í gegnum bernskukynni mín af Sveini sem til varð vitneskja um starf blaðamanns – að skrifa og taka ljósmyndir, kynnast ólíku fólki og aðstæðum, fylgjast með og segja frá merkilegum viðburðum, ferðast um ókunnar slóðir. Þetta var sem sagt atvinna, örugglega skemmtileg. Langar og þreytandi vaktir í tíðindaleysi bárust ekki í tal yfir kókóbollanum og valashinu í Grænugötu. En, takk fyrir þetta fræ, Svenni. Löngu eftir að Sveinn hafði horfið úr starfi blaðafulltrúans var ég staddur í fréttaöflunarferð í höfuðstöðvum SAS í Stokkhólmi. Brosmildir og kurteisir sænskir jakkafatamenn tóku á móti íslenskum blaðamönnum og þáverandi upplýsingafulltrúa Flugleiða – og spurðu að bragði: „Hvað er að frétta af Sveini?“

Hann skilaði drjúgu verki á langri ævi, þessi fjölhæfi maður, sem var einn þeirra sem rufu einangrun Íslands og opnuðu það fyrir nýjum straumum. En Sveinn var líka gæfumaður í einkalífi, fjölskyldumaður, og naut samverunnar með Mæsý. Þau voru einstaklega samheldin og nutu þess að ferðast um heiminn og um landið bláa á meðan heilsan leyfði. Nú hefur hann kvatt, fengið hvíldina, og tími er kominn til að þakka gömul kynni og allt sem hann lagði af mörkum. Fjölskyldunni og ástvinum öllum votta ég innilega samúð. Blessuð sé minning Sveins Sæmundssonar.

Óðinn Jónsson.