[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Badminton Jóhann Ingi Hafþórsson johanningi@mbl.is Badmintonkonan Margrét Jóhannsdóttir mun seint gleyma gærdeginum. Hún kom, sá og sigraði á Íslandsmótinu í TBR-húsinu í gær og varð þrefaldur Íslandsmeistari; í einliðaleik, tvíliðaleik og tvenndarleik.

Badminton

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Badmintonkonan Margrét Jóhannsdóttir mun seint gleyma gærdeginum. Hún kom, sá og sigraði á Íslandsmótinu í TBR-húsinu í gær og varð þrefaldur Íslandsmeistari; í einliðaleik, tvíliðaleik og tvenndarleik. Hún er fyrsta konan sem afrekar þetta síðan Tinna Helgadóttir, núverandi landsliðsþjálfari, gerði slíkt hið sama árið 2014.

Margrét hafði betur gegn Sigríði Árnadóttur í úrslitaleiknum en þær stöllur urðu svo Íslandsmeistarar í tvíliðaleik með sigri á Elsu Nielsen og Drífu Harðardóttur í úrslitaleik. Loks vann Margrét í tvenndarleik með Daníel Thomsen og var það þriðja árið í röð sem þau urðu Íslandsmeistarar saman. Þau unnu Davíð Bjarna Björnsson og Drífu Harðardóttur í úrslitum.

Í 70 ára sögu Íslandsmótsins í badminton höfðu 18 keppendur unnið þrefalt fyrir gærdaginn og fer Margrét því í ansi góðan hóp. „Ég var að vinna í fyrsta skipti í fyrra á móti mjög erfiðum andstæðingi og ég setti meiri pressu á sjálfa mig að vinna þetta í ár. Þetta var allt öðruvísi leikur en í fyrra,“ sagði Margrét eftir að Íslandsmeistaratitill hennar í einliðaleik var staðreynd, en þetta er annað árið í röð sem hún fagnar titlinum.

Margrét er aðeins 22 ára gömul og er ljóst að hún getur náð ansi langt í badminton. Hún vann ekki bara þrefalt, hún vann sannfærandi sigra og fór engin af viðureignum hennar í oddalotu. Búast má við að Margrét fari að keppa á Ólympíuleikum innan skamms, því hún hefur svo sannarlega getu til þess.

Eins og áður segir var það Sigríður Árnadóttir sem þurfti að lúta í lægra haldi gegn Margréti í einliðaleik, en þær stöllur urðu Íslandsmeistarar í tvíliðaleik saman. Þær eru nýbyrjaðar að spila saman og hafa alla burði til að ná ansi langt.

„Við erum mjög vanar því að spila á móti hvor annarri á öllum mótum, þar sem þetta er lítil íþrótt á Íslandi. Við erum mjög góðar vinkonur utan vallar og það er mjög sætt að vinna þetta með henni,“ sagði Sigríður eftir að hafa bæði tapað fyrir Margréti og unnið Íslandsmeistaratitil með henni.

Kári Gunnarsson varð Íslandsmeistari sjötta árið í röð í einliðaleik karla með sigri á Kristófer Darra Finnssyni í úrslitum. Kristófer náði svo að koma fram hefndum í úrslitaleik í tvíliðaleik er hann og Davíð Bjarni Björnsson höfðu óvænt betur gegn Kára og Daníel Thomsen í úrslitum. Þetta var fyrsti Íslandsmeistaratitill þeirra beggja og var Kristófer að sjálfsögðu kampakátur eftir að hafa unnið titilinn.

„Þetta er rosalega góð tilfinning, þetta er búið að vera markmiðið síðan í byrjun vetrar og það er rosalega sætt að geta klárað þetta svona. Þetta var mjög spennandi viðureign og það mátti lítið út af bregða,“ sagði hann við Morgunblaðið eftir að hafa tekið við Íslandsmeistarabikarnum.