Karl G.

Karl G. Kristinsson, prófessor og yfirlæknir á sýklafræðideild Landspítalans, og Vilhjálmur Svansson, dýralæknir og veirufræðingur á Keldum, eru sammála um að vekja þurfi almenning hér á landi til umhugsunar um þá hættu sem stafar af innflutningi ferskra matvæla og dýraafurða. Óheftur innflutningur kann til að mynda að hafa neikvæð áhrif á lýðheilsu Íslendinga að mati Karls.

Þeir Vilhjálmur og Karl héldu opna fundi um málið á Akureyri og á Húsavík um helgina og hyggjast þeir flytja erindið víðar um land, en fundunum stýrði Ögmundur Jónasson, fyrrverandi ráðherra.

Hér á landi segja þeir stöðuna mjög góða hvað varðar sjúkdómsstöðu og smithættu. „Núverandi sjúkdómsstaða er auðlegð sem okkur ber að verja,“ sagði Vilhjálmur, en smitsjúkdómsstaða íslenskra búfjárstofna er sögð einstök á heimsvísu. Landfræðileg staða landsins gegnir í því tilliti lykilhlutverki, en á Íslandi er t.a.m. lægsta nýgengi af kampýlóbaktersýkingum í allri Evrópu.

Þá sagði Vilhjálmur meðal annars að reynsla af innflutningi dýra og dýraafurða hefði í gegnum tíðina verið slæm. Telja þeir mikilvægt að fylgst sé vel með innflutningi ferskra matvæla og dýrafóðurs til að draga úr hættunni. Lengi hafa hér á landi verið strangar reglur um innflutning á hráum dýraafurðum, en fyrir 13 árum var slakað nokkuð á reglunum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Einstök staða hér á landi
» Prófessor og yfirlæknir á sýklafræðideild segir að lýðheilsu Íslendinga stafi hætta af innflutningi ferskra matvæla.
» Núgildandi reglur eru til þess fallnar að að draga úr líkunum á því að ný smitefni berist til landsins að mati dýralæknis og veirufræðings.
» Smitsjúkdómsstaða íslenskra búfjárstofna er sögð einstök á heimsvísu en landfræðileg staða landsins skiptir þar sköpum.