Guðmundur Sigurvin Magnússon fæddist 28. júní 1957. Hann lést 28. mars 2017.

Útför Guðmundar var gerð 7. apríl 2017.

Kynni okkar hófust fyrir alvöru 2009, þegar Gummi tók að sér byggingu á fjárhúsi, vélageymslu og síðar viðbyggingu og endurbætur á íbúðarhúsi okkar. Þessar framkvæmdir hafa tekið nokkur ár og því myndast sterk og góð tengsl á milli okkar. Betri og þolinmóðari mann var ekki hægt að fá í þessi verkefni með okkur, óþreytandi að vinna, leiðbeina og líta eftir okkur í þessum framkvæmdum. Nú er komið að leiðarlokum allt of snemma, verkefnalistinn var ekki tæmdur, en nú verðum við að halda áfram án smiðsins okkar, sem verður sárt saknað þegar eitthvað á að framkvæma, einnig komum við til með að sakna þess að smiðurinn renni í hlað í stutt spjall og kannski kaffibolla.

Elsku Gerður, og aðrir aðstandendur okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Minning um góðan mann lifir með okkur, með kæru þakklæti fyrir góðar stundir og sanna vináttu.

Jón Hilmar og Auðbjörg

Grænahvammi.