Geta ekki hvor án annars verið

Donald Trump Bandaríkjaforseta finnst lítið til fjölmiðla koma í heimalandi sínu. Hann gagnrýnir þá linnulítið og sakar þá um hlutdrægni, óvild og óheiðarleika. Fjölmiðlarnir svara með því að væna forsetann um ósanngirni og lygar.

Ekki er þó allt sem sýnist í þessu ati. Trump hefur reynst ýmsum fjölmiðlum mikill happafengur, aukið bæði lestur og áhorf. Þá hefur athygli fjölmiðla síður en svo verið myllusteinn um háls Trumps. Athygli fjölmiðla í kosningabaráttunni átti sinn þátt í að veita honum brautargengi.

Sjónvarpsfréttastöðin CNN er gott dæmi. Trump hefur sérstaklega illan bifur á CNN og stöðin gefur honum lítil grið.

Fyrir framboð Trumps fjaraði undan CNN. Stöðin átti erfitt með að marka sér bás. Efnistökin þóttu bragðdauf og máttlítil miðað við helstu keppinautana til hægri og vinstri, Fox og MSNBC, sem einnig sjónvarpa fréttum og fréttatengdu efni allan sólarhringinn. CNN fór á flug í stórviðburðum, en þeir voru ekki nógu tíðir til að tilvistin væri tryggð. Með Trump varð hins vegar dagskrá CNN að samfelldum stórviðburði. Fréttastofan var með beinar útsendingar frá kosningafundum hans og birti við hann fjölda viðtala.

Á kosningakvöldinu var mest horft á kosningasjónvarp CNN, sem sló ekki aðeins við Fox og MSNBC, heldur einnig stóru sjónvarpsstöðvunum þremur, ABC, CBS og NBC.

Eftir að Trump varð forseti hafa fréttastöðvarnar þrjár, CNN, Fox og MSNBC, haft mun meira áhorf en endranær.

Komið hefur fram að CNN nefndi Trump átta sinnum oftar á nafn en Ted Cruz, helsta keppinaut hans um að verða forsetaframbjóðandi repúblikana, í forkosningunum.

Fyrirtækið mediaQuant gerir ýmiss konar fjölmiðlamælingar. MediaQuant reiknaði út að umfjöllun um Trump í fjölmiðlum í kosningabaráttunni jafngilti 5,8 milljörðum dollara (653 milljörðum króna) hefði hann þurft að kaupa sér samsvarandi auglýsingapláss. Það er 2,9 milljörðum dollara meira en Hillary Clinton, frambjóðandi demókrata.

Það kann að anda köldu á milli Trumps og fjölmiðla, en um leið geta þeir ekki hvor án annars verið.