Kristján Þór Kristjánsson fæddist í Reykjavík 10. desember 1941. Hann lést á Landspítalanum 29. mars. 2017.

Foreldrar hans voru Kristján Magnússon úr Dal í Vestmannaeyjum, f. 24. febrúar 1909, d. 16. nóvember 1979, og Júlíana Kristmannsdóttir frá Steinholti í Vestmannaeyjum, f. 18. júlí 1910, d. 10. janúar 1990. Systkini Kristjáns eru Jónína Kristín Kristjánsdóttir, f. 6. nóvember 1930, Magnea Kristjánsdóttir, f. 20. mars 1932, d. 13. ágúst 1998, og Kristján Kristjánsson, f. 23. janúar 1936, d. 17. júní 1936. Kristján Þór giftist fyrri konu sinni, Katrínu Báru Bjarnadóttur, f. 15. júlí 1943, árið 1963. Börn þeirra eru Kolbrún Kristjánsdóttir, f. 15. febrúar 1966, Kristján Þór Kristjánsson, f. 20. október 1967, og Fríða Dröfn Kristjánsdóttir, f. 15. september 1974. Síðar giftist hann Ástu Ástþórsdóttur, f. 7. mars 1955 og eignaðist með henni dótturina Ester Sif Kristjánsdóttur, f. 24. mars 1982. Fyrir átti Ásta soninn Elvar Kristinsson, f. 7. október 1974. Kristján Þór ólst upp í Vesturbæ Reykjavíkur, gekk í Melaskóla, síðar Iðnskóla Reykjavíkur og lauk síðan tæknifræðiprófi frá Odense Teknikum árið 1966. Hann starfaði sem framkvæmdastjóri í Vestmannaeyjum og á Reykhólum, og síðar sem kennari í Fjölbrautaskóla Suðurlands og Fjölbrautaskólanum við Ármúla.

Útför Kristján Þórs fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 10. apríl 2017, klukkan 13.

Þór – eins og hann var ætíð kallaður í fjölskyldu minni – fylgdi fjölskyldu minni eins og órofaþáttur í heimilislífinu í hartnær tvo áratugi bernsku- og unglingsára. Hann og pabbi voru miklir vinir, ekki bara vegna þess að þeir voru giftir systrum, heldur vegna þess að þeir áttu skap saman. Báðir voru léttlyndir og svolítið stríðnir, mikið fyrir glens, góðar sögur og óvæntar uppákomur. Þór var einnig einstaklega raungóður og mikill stuðningur við mömmu sem alltof snemma varð ættmóðir er báðir foreldrar þeirra systra féllu frá á sama árinu.

Sjálf á ég mínar fyrstu minningar í tengslum við Þór og veru hans á loftinu hjá ömmu í Miðtúni. Þar sat hann og lærði alla daga, var að búa sig undir nám í tæknifræði í Danmörku. Hann vann á þessum tíma í vélsmiðjunni Héðni og fór ófáar ferðir með dúkkuvagninn minn til að sjóða saman á honum stellið eftir ítrekuð brot okkar stelpnanna á „þungatakmörkunum“ í vagninn við leik.

Síðar, eftir heimkomuna frá Danmörku og flutninga til Vestmannaeyja, kynntumst við nýrri hlið á Þór; náttúrbarninu. Hann kleif með okkur alla tinda á eynni, dró okkur upp á Heimaklett til að ögra lofthræðslu og efla hugdirfsku, safnaði með okkur pysjum í kassa til að sleppa á Eiðinu. Hann fór með okkur að renna fyrir fiski á bátnum Ísak – nestið var einfalt, kóngasúkkulaði og gos úr Vélsmiðjunni Magna og ekki man ég til að björgunarvesti hafi þótt nauðsynlegur búnaður í þessar ferðir. Þór kenndi mér að spranga og lét mig þar með sanna fyrir sjálfri mér og umheiminum að það væri ekki bara fyrir stráka – sem þó virtist ríkjandi viðhorf á þeim tíma.

Þetta voru ógleymanlegir tímar og hlýhugurinn sem okkur var sýndur ljær þeim enn fallegan ljóma. En skugga bar þó fljótt fyrir sólu. Þegar ógæfan reið yfir við gosið í Heimaey, var líkt og eitthvað brysti. Áfallið sem ung fjölskylda upplifði var gríðarlegt. Heimilið hvarf undir hraun, lífsviðurværið gufaði upp og dökkur gosmökkurinn skyggði á öll framtíðaráform. Allt breyttist og þótt aftur væru snúið til Eyja fór framtíðin á annan veg en lagt var upp með.

Þór hefur samt ætíð verið nálægur í gegnum frændsystkini mín þrjú, þau Kolbrúnu, Kristján Þór og Fríðu Dröfn.

Að leiðarlokum þakka ég Þór fyrir hans hlýja hug í minn garð; fyrir fallegar minningar tengdar bestu stundum bernsku og uppvaxtar. Jafnframt votta ég börnum hans innilega samúð mína og fjölskyldu minnar allrar á kveðjustund.

Fríða Björk Ingvarsdóttir.

Vinur minn til tæpra 60 ára, Kristján Þór, er nú horfinn yfir móðuna miklu. Okkar strengir lágu víða saman. Lærðum járnsmíði í Héðni og spiluðum fótbolta með Héðinsliðinu. Þar var Kristján vel liðtækur, hafði spilað með yngri flokkum í KR. Hann var, eins og nú hefði verið sagt, framliggjandi miðjumaður með góða skallatækni. Síðar vorum við Kristján samskipa á leið til náms í Danmörku og útskrifuðumst saman. Á námsárunum átti ég alltaf vísan griðastað á heimili Stjána og Kötu í Óðinsvéum.

Kristján var maður kvikur í hreyfingum og fór hratt yfir. Þegar hann kom yfir í bekkinn til mín og hitti ekki á mig, sögðu bekkjarbræður mínir danskir „han var her den rastløse“ og þá vissi ég hver hefði verið á ferð. Þetta voru góð ár. Eftir að heim kom skildi leiðir að sinni. Kristján flutti til Vestmannaeyja og bjó þar fram yfir gos. Eftir Vestmannaeyjadvölina flutti Kristján að Reykhólum og tók við starfi framkvæmdastjóra Þörungavinnslunnar. Þá endurnýjuðum við sambandið með góðri samvinnu. Hann bar hag Þörungavinnslunnar fyrir brjósti, hugaði vel að endurbótum og viðhaldi eins og efni stóðu til og var vakandi fyrir nýjungum. Hann var vinsæll hjá starfsmönnum og staðarbúum, en var ekki ætíð samstiga kerfiskörlunum í Reykjavík eins og margir landsbyggðarmenn þekkja. Eftir Reykhólatímabilið gerðist hann raungreinakennari við Ármúlaskóla og líkaði vel. Eitt sinn hitti ég fyrrverandi nemanda skólans og spurði hann hvort hann kannaðist við Kristján. Hann sagði: „Já, hann var kennarinn minn og besti kennari sem ég hef haft.“ Þetta þótti mér vænt um að heyra, en kom mér ekki á óvart. Síðustu árin áttum við sameiginlega vini austur í Gnúpverjahreppi og hittumst á þeim vettvangi.

Kristján var hreinskiptinn maður og gat stuðað menn með snörpum tilsvörum, en hann var glaðlegur og velviljaður. Ég ætla ekki að tíunda mannkosti Kristjáns frekar, þá þekkja samferðamenn hans og hans nánustu. Góðar minningar lifa lengst, sem betur fer og þær á ég um vin minn. Ég votta börnum hans samúð mína. Hvíl í friði, Stjáni.

Sigurjón Svavar

Yngvason.