Kórea Rex Tillerson segir Kínverja þurfa að gera meira gegn N-Kóreu.
Kórea Rex Tillerson segir Kínverja þurfa að gera meira gegn N-Kóreu. — AFP
Bandarísk flotadeild, með flugmóðurskip innan sinna raða, stefndi hraðbyri í gær í átt að Kóreuskaga.

Bandarísk flotadeild, með flugmóðurskip innan sinna raða, stefndi hraðbyri í gær í átt að Kóreuskaga. Talsmenn Hvíta hússins greindu frá því að Donald Trump Bandaríkjaforseti hefði beðið ráðgjafa sína um að kanna hvaða kostir væru mögulegir til þess að eyða ógninni sem stæði af kjarnorkuvopnabúri Norður-Kóreumanna.

Aðgerð flotans kemur skömmu eftir að Bandaríkjamenn skutu 59 eldflaugum á herflugvöll í Sýrlandi í refsiskyni fyrir beitingu efnavopna. Sú árás var talin hafa falið í sér skilaboð til norðurkóreskra stjórnvalda. Koma flotadeildarinnar til Kóreuskaga er því talin munu auka spennu í samskiptum Norður-Kóreu við nágranna sína.

Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði í viðtali í gær að markmið Bandaríkjanna væri ekki að koma í kring breytingu á stjórnarháttum í Norður-Kóreu. Hins vegar gerðu Bandaríkin þá kröfu að Kínverjar, helstu bandamenn Norður-Kóreu, legðu meira af mörkum til þess að Norður-Kóreumenn gæfu kjarnorkuvopn sín upp á bátinn. „Þeir hafa gefið til kynna að þeir muni gera það og ég tel að við þurfum að gefa þeim tíma til þess að hrinda því í framkvæmd,“ sagði Tillerson í samtali við bandarísku sjónvarpsstöðina ABC.

H.R. McMaster, þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjanna, sagði hins vegar að þar til Kínverjar tækju í taumana væri það vissara að senda flotadeildina á svæðið. Gagnrýndi hann Norður-Kóreu fyrir ögrandi hegðun á undanförnum mánuðum, en ríkið hefur gert ítrekaðar prófanir með bæði kjarnavopn og eldflaugar. sgs@mbl.is