Hráleikur Kathrin Angerer, Bernard Schütz og Ragnar Kjartansson.
Hráleikur Kathrin Angerer, Bernard Schütz og Ragnar Kjartansson. — Ljósmynd/Thomas Aurin
Lofsamlegum orðum er farið um uppfærslu Ragnars Kjartanssonar í leikhúsinu Volksbühne í Berlín á verkinu Raw Salon: Ein Rohspiel, sem kalla mætti hráleik á íslensku, í vefmiðlinum nachtkritik.de. Ragnar notar texta kanadíska skáldsins Anne Carson.

Lofsamlegum orðum er farið um uppfærslu Ragnars Kjartanssonar í leikhúsinu Volksbühne í Berlín á verkinu Raw Salon: Ein Rohspiel, sem kalla mætti hráleik á íslensku, í vefmiðlinum nachtkritik.de.

Ragnar notar texta kanadíska skáldsins Anne Carson. Textinn tekur tíu mínútur í flutningi, en hann er endurtekinn í síbylju og stendur verkið því í þrjár klukkustundir.

Rýnir menningarvefsins, Christian Rakow, segir í dómnum, sem birtist á fimmtudag, hins vegar mikla fjölbreytni í endurtekningunni. Í verkinu koma saman Lavinia Molson-Beck (Kathrin Angerer) og Lesley Updown lávarður (Bernhard Schütz) og má skilja að samkvæmi sé í vændum, segir í umsögninni. Þau spjalla saman og koma víða við, ræða stríðið í Sierra Leone og fáfræði fólks í líkamsræktarstöðvum, kjör þjónustufólks og fjölmiðlaneyslu Kjartan kemur sjálfur fram í sýningunni og leikur nágranna í blómaskyrtu.

Í umsögninni er því lýst hvernig áherslur breytast eftir því sem textinn er endurtekinn. Í upphafi eiga sér stað rómantískar þreifingar en smám saman breytist stemningin og á endanum verður sviðið líkara vígvelli.

Segir í dómnum að sjaldan hafi jafn mikillar tryggðar gætt við texta á sviðinu í Volksbühne: „Vilji einhver átta sig á hvernig leikhúsið getur með algerri „verklegri tryggð“ sviðsett texta með gerólíkum hætti finnur hér fyrir kennslustund í hæsta gæðaflokki.“

Kjartani er hrósað fyrir frammistöðu sína og sér rýnirinn sérstaka ástæðu til að hæla honum fyrir „dásamlega klossaða Íslendingaþýsku“.

Í dóminum segir að í verkinu fáist Kjartan við efni, sem sé mörgum listamönnum hugleikið um þessar mundir. Ráðandi sé hið myndræna, uppsetningin og endurtekningin og dregið í efa að hægt sé að fanga veruleikann í frásögn. Sýningin nærist á tilbrigðunum við endurtekninguna. Um sé að ræða „nýfáránlegar ásýndir fangaðs veruleika í von um lausn, sem ekkert bólar á“.