Töfrar „Það að lesa góðan texta upphátt og gefa sér tíma getur gefið hvorutveggja lesara sem hlustanda eitthvað annað og meira en fæst með venjulegum bóklestri. Ímyndunaraflið er virkjað á annan hátt og eins og komi meiri fylling í verkið og myndin verði jafnvel skýrari,“ segir Sigurður.
Töfrar „Það að lesa góðan texta upphátt og gefa sér tíma getur gefið hvorutveggja lesara sem hlustanda eitthvað annað og meira en fæst með venjulegum bóklestri. Ímyndunaraflið er virkjað á annan hátt og eins og komi meiri fylling í verkið og myndin verði jafnvel skýrari,“ segir Sigurður. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Það er skrítið að hugsa til þess að Sigurður Skúlason skuli vera orðinn sjötugur, og seint hægt að segja að hann beri aldurinn með sér. Sigurður kvaddi Þjóðleikhúsið fyrir tíu árum en hefur ekki setið auðum höndum.

Viðtal

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Það er skrítið að hugsa til þess að Sigurður Skúlason skuli vera orðinn sjötugur, og seint hægt að segja að hann beri aldurinn með sér.

Sigurður kvaddi Þjóðleikhúsið fyrir tíu árum en hefur ekki setið auðum höndum. „Ég hefði getað starfað lengur, en mér fannst ég vera farinn að endurtaka sjálfan mig og ekki fá nógu skemmtileg verkefni að glíma við og ögra sjálfum mér,“ segir hann. „Ég var eiginlega löngu tilbúinn að hætta en hafði samt ekki hugsað mér að skrúfa alveg fyrir og gerði mér kannski von um að fá eitt og eitt hlutverk öðru hvoru. En einhvern veginn datt það alveg upp fyrir, og þegar maður var farinn var maður bara farinn. Það kemur fyrir að ég finn smá fiðring ef ég sé verulega góða leiksýningu, en ég sakna samt sviðsins minna og minna.“

Textar sem leita á hann

Sigurður situr samt ekki auðum höndum og tekur að sér ýmis verkefni hér og þar, les öðru hvoru fyrir Hljóðbókasafnið, kennir, flytur dagskrár og dundar sér við að skrifa og semja. Þá vinnur Sigurður að gerð heimildarmyndar, og nýlega gaf hann út hljómdisk með lestri á völdum ljóðum og textabrotum. Diskurinn ber yfirskriftina svo húmar að með ást og kom út í desember, en fyrir sléttum áratug sendi Sigurður frá sér annan hljómdisk, og líf vort aðeins leit , í samstarfi við Dimmu. „Þegar ég varð sextugur vildi ég gera eitthvað almennilegt í tilefni af því að vera orðinn svona gamall. Ferlið reyndist svo skapandi og skemmtilegt að ég féll fyrir því aftur tíu árum síðar og gaf að þessu sinni út sjálfur,“ segir Sigurður.

Á diskunum leitar Sigurður víða fanga. Höfundarnir spanna allt frá Shakespeare til Jónasar Hallgrímssonar, og frá Tennessee Williams til Gyrðis Elíassonar.

„Það eru bæði eldri og nýrri upptökur á fyrri diskinum. Þá fékk ég nokkrar að láni úr safni RÚV en annað var tekið upp sérstaklega fyrir útgáfuna. Á þeim síðari eru hins vegar aðeins nýjar upptökur. Á diskunum eru ekki bara ljóð heldur líka eintöl, sögubrot, smásögur og prósar. Fyrst og fremst er þetta efni sem hefur fylgt mér í gegnum tíðina og leitað á mig og fengið mig til að hrífast. Þetta eru textar sem snerta mig og hafa þau áhrif á mig að mig langar að glíma við þá og koma á framfæri við hlustandann.“

Hljómdiskaútgáfa af þessu tagi er afar sjaldgæf. Sjálfur minnist Sigurður útgáfu á tveimur diskum með upplestri Lárusar Pálssonar. „Þeir diskar komu út fyrir nokkrum árum og er mikill fengur að þeim. Árið 1994 kom líka út diskur með lestri Þorsteins Ö. Stephensen,“ segir hann. „Þetta er mjög sjaldgæft og er sko ekki til fjárhagslegs ávinnings,“ bætir Sigurður glettinn við.

Upplifir Laxness á nýjan hátt

Að lesa upphátt hefur verið hluti af lífi Sigurðar allt frá því að hann fór fyrst að lesa, og sem leikari fór hann fljótlega að sinna ýmsum upplestrarverkefnum. Í langan tíma hefur hann líka stundað það á þessum tíma árs að lesa Passíusálmana . Upplestur er bæði stór og eðlilegur hluti af lífi Sigurðar, jafnt í starfi hans og einkalífi, og er ekkert lát þar á. „Þegar maður verður eldri og hættir í fastri vinnu í sínu fagi er hætta á að maður verði ekki eins liðugur og áður, hvorki í röddinni né öðrum líkamshlutum. Ég tók því upp á því núna á síðasta ári að lesa á hverju kvöldi fyrir mig og kærustuna. Við höfum tekið Laxness fyrir, og fyrir svefninn les ég einn eða tvo kafla úr bók eftir hann. Við erum að verða búin með þriðju bókina.“

Kvöldlesturinn á bókum Laxness hefur minnt Sigurð á að þegar fallegur texti er lesinn upphátt gerist ákveðinn galdur. „Það að lesa góðan texta upphátt og gefa sér tíma getur gefið hvorutveggja lesara sem hlustanda eitthvað annað og meira en fæst með venjulegum bóklestri. Ímyndunaraflið er virkjað á annan hátt og eins og komi meiri fylling í verkið og myndin verði jafnvel skýrari. Athyglin í upplestri er öðruvísi og alls kyns smáatriði koma í ljós sem fara framhjá manni þegar lesið er í hljóði. Það er sérstaklega gefandi að lesa Laxness núna, þetta eru allt aðrar bækur en ég las fyrir þrjátíu árum!“

Passíusálmarnir eru eilífðarverkefni

Flestir kunna að meta vel lesna sögu eða ljóð en fáir átta sig á hversu mikil vinna og listræn túlkun á sér stað af hálfu þess sem les textann. „Hver maður hefur sín eigin vinnubrögð, en ég reyni eftir megni að kynna mér bakgrunn verksins, hver skrifaði það, af hverju, og undir hvaða kringumstæðum. Maður verður að æfa sig á efninu, lesa upphátt með sjálfum sér, gera kannski tilraunir með formið og reyna að skilja uppbyggingu textans til hlítar. Ljóðstafasetning, stuðlar, höfuðstafir og rím – þetta þarf að tengja allt saman. En þegar upp er staðið ræður úrslitum um áhrif upplesturs hæfileikar, reynsla og þroski þess sem les.“

Það getur verið eilífðarverkefni að reyna að ná tökum á upplestri tiltekins verks, og eins og fyrr var nefnt hefur Sigurður lesið Passíusálmana í heild sinni á föstudaginn langa nokkur undanfarin ár. Að þessu sinni les Sigurður sálmana í Kópavogskirkju. „Þetta er engin smáræðis glíma enda tekur lestur Passíusálmanna um fjóra og hálfa klukkustund án hlés, og ég held að það muni aldrei takast að koma öllu því til skila sem þetta verk býr yfir; því trúarlega, því persónulega frá Hallgrími, því skáldskaparlega og þessum tveimur mismunandi tímum sem koma fram í verkinu: tíma Hallgríms og tíma Jesú Krists. Að flytja Passíusálmana er verkefni með engan lokapunkt.“

Þegar röddin býr til gæsahúð

Góður upplestur getur verið ógleymanlegur og minnist Sigurður þess þegar hann hlustaði sem ungur maður á þáttinn Á hljóðbergi í Ríkisútvarpinu. „Þessi þáttur var á dagskrá seint á þriðjudagskvöldum og þar flutti Björn Th. Björnsson úrvalsgott lesið og leikið efni, bæði innlent og erlent. Mér er sérstaklega minnisstætt þegar Björn spilaði upptöku þar sem breski leikarinn Nicol Williamson las úr Hringadróttinssögu . Það var sannkallaður galdur. Leikarinn hafði svo gott vald á því sem hann var að gera, jafnvel þótt hann þyrfti að túlka ótal ólíkar verur; álfa, dverga og forynjur á víxl. Hann gerði þetta ótrúlega fagmannlega og flæðandi með lifandi leikrænni tjáningu og hélt hlustandanum rígföstum, stundum svo að hárin fóru að rísa.“

Sigurður minnist þess sem hann sagði í þáttum sem hann gerði á sínum tíma um bítilinn John Lennon. „Ég hóf þættina á að tala um mannsröddina, enda Lennon með alveg einstaka rödd. Ég sagði hlustendum að hljómurinn í röddinni segði okkur sögu sérhvers manns; hvernig lífi hann hefði lifað og hver hann eða hún væri. Halldór Laxness orðar það þannig: „Hafi maður misst það sem hann elskar heitast þarf ekki að yrkja, hreimurinn í rödd hans segir allan skáldskap lífsins.“

Hið sjónræna tekur yfir

Upplestur er ævafornt og mergjað listform þar sem eingöngu er stuðst við röddina og þau hljóð sem hún getur framkallað. Mannsröddin og möguleikar hennar hafa samt látið undan í leikhúsinu á undanförnum áratugum. Sigurður rekur þróunina til áhrifa sjónvarps og kvikmynda á leikhúsið. „Þegar leikarar fóru að leika í sjónvarpi og kvikmyndum urðu þeir miðlar meira ráðandi um leikstílinn og leikhúsið gaf líka eftir og fór að herma eftir bíói. Hið sjónræna tekur yfirhöndina og framsögnin gefur eftir fyrir einhverjum hugmyndum um natúralisma.“

Minnist Sigurður þess sem honum var kennt í leiklistarnáminu um að rödd leikarans ætti að berast um allt húsið. „Því var haldið tryggilega að okkur að áhorfandinn sem keypti sér sæti á aftasta bekk á efstu svölum hefði sama rétt og áhorfandinn á fyrsta bekk að heyra og skilja allt sem sagt væri á sviðinu. Var mikil áhersla lögð á það að þjálfa og styrkja röddina svo að hún gæti borist um allt húsið án þess að maður þyrfti að rembast. Í dag segja ungu leikararnir manni að fá sér heyrnartæki ef maður kvartar yfir því að það heyrist ekki nógu vel í þeim.“