Kattholt Halldóra og mjúku vinirnir í Kattholti tóku á móti gestum og gangandi á páskabasar Kattavinafélagsins.
Kattholt Halldóra og mjúku vinirnir í Kattholti tóku á móti gestum og gangandi á páskabasar Kattavinafélagsins. — Morgunblaðið/Golli
Elín Margrét Böðvarsdóttir elinm@mbl.is „Þetta er búið að vera í mörg ár.

Elín Margrét Böðvarsdóttir

elinm@mbl.is

„Þetta er búið að vera í mörg ár. Það er bæði páskabasar og jólabasar og þetta er okkar fjáröflunarleið til að halda rekstrinum gangandi og svo hægt sé að halda úti svona athvarfi,“ segir Halldóra Björk Ragnarsdóttir, formaður Kattavinafélags Íslands, en á laugardag var árlegur páskabasar haldinn í Kattholti.

Að sögn Halldóru var fullt út úr dyrum og þurfti á köflum að hleypa fólki inn í hollum. Til sölu var fjölbreyttur varningur; ýmsir páskamunir, skraut, kökur og síðast en ekki síst hinir og þessir munir sem tengjast kisum, s.s. kisustyttur, kerti, bolir og sérhannaðar könnur. Könnurnar seldust upp að sögn Halldóru og það gerðu terturnar sömuleiðis.

„Terturnar kláruðust á tveimur tímum þannig að basarinn virðist vera að sækja í sig veðrið,“ segir Halldóra létt í bragði. „Þetta er náttúrlega kisufólk sem kemur og við erum alltaf að fá mikið til sama fólkið til okkar. En alltaf sjáum við ný og ný andlit líka,“ bætir hún við. Þá segir Halldóra einstakt gleðiefni að tvær kisur fengu nýtt heimili í framhaldi af basarnum og til greina kemur að fleiri taki að sér munaðarlausar kisur í vikunni.

„Þetta skiptir náttúrlega miklu máli fyrir reksturinn – að fá inn peninga til þess að geta haldið öllu í gangi. Við erum bæði með starfsfólk og það þarf að mæta dýralæknakostnaði og öllu sem því fylgir,“ útskýrir Halldóra.

Þá rekur félagið einnig kisuhótel sem er fullt núna um páskana, en þar dvelja nú um 50 kettir og er biðlistinn nokkuð langur. Alls eru nú um 1.300 manns skráðir í Kattavinafélagið.