Elías Elíasson
Elías Elíasson
Eftir Elías Elíasson: "Landsvirkjun getur ekki bæði virkjað hratt fyrir sæstreng eða nýja stóriðju og jafnframt greitt ómældan arð til ríkisins."

Landsvirkjun vill hækka orkuverð sitt til almennings, en hefur ekki enn fundið neinn þann alvöruvanda sem slík ráðstöfun leysir. Því var reynt að gera vandamál úr því hvað litlu munar á orkuverði til stóriðju og almennings og er fjallað um það í grein minni „Leit að vanda“ (Mbl. 15/3-'17).

Í þessu skyni boðaði Landsvirkjun til morgunverðarfundar undir heitinu „Raforkumarkaður á tímamótum“. Þar var lögð fram ágæt skýrsla dansks ráðgjafafyrirtækis, Copenhagen Economics (CE), sem setur fram ýmsar gagnlegar hugmyndir um leiðir til að bæta raforkumarkaðinn, en telja síðan íslensk stjórnvöld þurfa að marka þá stefnu sem val milli leiða byggist á.

Raunverulegi vandinn er sá, að 2003 voru sett ný orkulög, sniðin að reglum ESB og hugmyndum þar um hvernig hægt er að nýta samkeppni og raforkumarkað til að tryggja hagkvæmni í raforkuvinnslu. Gallinn er sá, að þær hugmyndir gætu skapað fleiri vandamál en lausnir í okkar orkukerfi. Eins og skýrsla CE greinir frá, þá er hætt við, að markaður eins og hann er innan ESB yrði sveiflukenndur þegar hráorkan kostar ekkert eins og hér gildir. Slíkur markaður myndi með öðrum orðum ekki virka sem skyldi.

Til eru þeir, sem eru jafnvel trúaðri á reglur ESB en fólk þeirra landa. Þeir telja gjarnan skylt að útfæra hugmyndir um raforkumarkað bókstaflega. Raforkuverð skuli hér ráðast á frjálsum markaði og ekki megi reisa nýjar virkjanir nema það verð tryggi góða arðsemi. Bókstafstrúarmenn á markaðsfræði nefna það niðurgreiðslur, ef arðsemi er ekki fyrir fram gefin. Þetta heitir á íslensku, að vera kristnari en páfinn. Skýrsla CE nefnir einmitt niðurgreiðslur á virkjanakostnaði sem eina mögulega leið, en bendir um leið á, að þræða þurfi reglugerðafargan ESB.

Samkvæmt lögum um Landsvirkjun, sem giltu fyrir 2003, þá átti orkuverð fyrirtækisins á almenna markaðinn að ráðast af fjárþörf þess til greiðslu skulda, reksturs og nýframkvæmda. Fyrirtækið var jafnframt framleiðandi til þrautavara. Hins vegar máttu samningar við stóriðju ekki leiða af sér hækkun á orkuverði til almennings. Fyrirtækið átti sem sagt, eins og Janus hinna fornu Rómverja, að hafa tvö andlit. Skyldi þjónustuandlitið snúa að almenningi, en verslunarandlitið að stóriðjunni. Auðvitað getur verið erfitt að ákveða í hvorn fótinn skal stigið þegar maður hefur tvö andlit. Því vill Landsvirkjun losna við þjónustuandlitið, en almenningur er ekki á sama máli.

Fyrirkomulagið fyrir 2003 átti að vera þannig, að þegar greiðslur af lánum eldri virkjana færu að lækka og auðlindarentan kemur fram mátti taka þá fjármuni til fjárfestinga í nýjum virkjunum. Með þessu fyrirkomulagi hefði verið auðvelt að virkja dýrar smávirkjanir fyrir almenna markaðinn, án þess að hækka orkuverð marktækt. Þeir sömu fjármunir verða hins vegar hvorki nýttir í arðgreiðslur eða skatta til ríkissjóðs. Því var það, að þegar uppbyggingin varð hraðari en menn höfðu þorað að vona, þá varð lítið um arðgreiðslur. Eins verður nú. Landsvirkjun getur ekki bæði virkjað hratt fyrir sæstreng eða nýja stóriðju og jafnframt greitt ómældan arð til ríkisins.

Hætt er við að vandamálasmíð Landsvirkjunar muni litlu breyta um það hvaða hlutverk almenningur ætlar henni. Almenningur vill áfram sjá þjónustuandlitið snúa við sér og þegar allt kemur til alls, þá erum við að tala um raunverulegan eiganda Landsvirkjunar og þann aðila sem hefur trúað fyrirtækinu fyrir auðlindum. Vandamálasmíð leysir heldur ekki þann vanda stjórnmálamanna að þurfa að setja fyrirtækinu eigendastefnu, sem er bæði í samræmi við strangtúlkuð orkulög frá 2003 og ríkjandi almenningsálit. Slík stefna hefur enn ekki verið mörkuð þótt oft hafi verið eftir kallað á þeim 14 árum sem liðin eru.

Með því að almenningur neitar að skipta um skoðun á því, hvert skuli vera hlutverk Landsvirkjunar, þótt sett séu orkulög sem marka henni annað hlutverk, þá er ef til vill verið að neyða einskonar tvíhyggju upp á fyrirtækið. Nú má vel vera, að það rugli Landsvirkjun að bera þannig áfram tvö andlit, en meðan fyrirtækið skal rekið eftir orkulögum sem henta illa aðstæðum, þá verður að hafa það.

Treysti stjórnvöld sér ekki til að setja fyrirtækinu opinbera eigendastefnu, sem samræmist almannavilja, þá getur ráðherra alltaf tryggt, að sá stjórnarformaður sem hann skipar hafi hlutverkið á hreinu. Morgunverðarfundir og aðrir upplýsingafundir Landsvirkjunar yrðu miklu betra innlegg í þjóðfélagsumræðuna, ef hægt væri að sleppa undirliggjandi áróðri fyrir sæstreng og almennum verðhækkunum.

Höfundur er fyrrverandi sérfræðingur í orkumálum hjá Landsvirkjun.

Höf.: Elías Elíasson