Heiðar Ragnarsson
Heiðar Ragnarsson
Eftir Heiðar Ragnarsson: "Bandarískri konu var boðið að fara í þriðju chemo-meðferðina. Hún taldi að hún myndi ekki lifa af svo harkalega meðferð einu sinni enn og valdi annað."

Getur verið að krabbameinslækningar á Vesturlöndum séu ofurseldar valdi lyfjafyrirtækja sem virðast markaðssetja krabbameinslyf að verulegu leyti með hagnaðarsjónarmið í huga en hugsi minna um hagsmuni þeirra veiku? Virtur læknir sagði fyrir nokkrum árum að fleiri krabbameinssjúklingar dæju af völdum meðferðarinnar en af völdum krabbameinsins.

Er það líka svo á Íslandi að meðferð með hættulegum chemo-lyfjum sé, fyrir utan skurðaðgerðir, í mörgum tilfellum talin eina viðurkennda aðferðin til að berjast við krabbamein? Er virkilega ekkert hugsað um að byggja upp náttúrulegar varnir líkamans (ónæmiskerfið) með hollu og góðu mataræði o.fl?

Fyrir rúmu ári síðan hitti ég bandarísk hjón á matreiðslunámskeiði í Taílandi, konan sagði mér að hún væri í krabbameinsmeðferð í Bangkok á stofnun sem heitir Verita Health. Hún var búin að vera þar í sex vikur af átta en fékk tveggja daga frí til að fara á námskeiðið. Hún hafði áður farið í tvær chemo-meðferðir í Bandaríkjunum og þegar meinið tók sig upp að nýju var henni boðin þriðja chemo-meðferðin. Hún sagði að hún teldi að hún myndi ekki lifa af svo harkalega meðferð einu sinni enn og nú ætlaði hún að prófa eitthvað annað. Þau hjónin fóru svo að athuga hvaða meðferðir væru í boði annars staðar í heiminum og völdu svo að fara á Verita Health í Bangkok eins og áður sagði. Ég sagði við hana að hún liti ekki út fyrir að vera alvarlega veik og hún svaraði að sér hafi ekki liðið svona vel í mörg ár. Á þessari stofnun voru notaðar ýmsar meðferðir, en það mikilvægasta var að byggja upp og efla ónæmiskerfið með hollu og hreinsandi mataræði með gönguferðum, jóga og öðrum æfingum svo og með inntöku þekktra heilsujurta. Mataræðið var að miklu leyti grænmeti og ávextir, möndlur og fræ en líka svolítið af fiski og kjöti en enginn viðbættur sykur, ekkert hvítt hveiti og engar mjólkurvörur. (Ég vissi af manni sem var í krabbameinsmeðferð á Landspítalanum og þegar dóttir hans hafði áhyggjur af því að hann fengi ekki nóg að borða var henni sagt að hann hafi nú bara rétt í þessu verið að borða Prins Póló – Þessi maður lifði hvorki af sjúkdóminn né meðferðina).

Fjölmargar sögur eru til um að fólk hafi læknast af krabbameini með svokölluðum óhefðbundnum aðferðum, bæði með aðstoð lækna en einnig án lækna. – Auðvitað getur enginn fengið einkaleyfi á að ávísa á hvítlauk, engifer, túrmerik, kanil, cayenne og aðrar heilsujurtir. Kannski þess vegna telja lyfjafyrirtækin að þessar aðferðir séu hæpnar og ekki viðurkenndar eða sannaðar á vísindalegan hátt. Chemo-meðferðirnar eru hins vegar sannaðar með vísindalegum hætti, þær drepa niður eða minnka krabbameinsæxli, en gallinn er sá að á sama tíma rústa þessi lyf stórlega ónæmiskerfi líkamans og ef fólk þarf að fara oftar í slíka meðferð eru lífslíkur mjög takmarkaðar.

Lyfjafyrirtækin í Bandaríkjunum hafa brugðist hart gegn annars konar meðferðum að því er virðist til að koma í veg fyrir að ódýrar og oft áhrifaríkar aðferðir geti komið í stað rándýrra einkaleyfisvarðra krabbameinslyfja.

Er ekki kominn tími til að íslensk heilbrigðisyfirvöld skoði með jákvæðum huga hvað gert er á þessu sviði, t.d. í Taílandi, Ástralíu, Mexíkó, Kúbu og víðar, þannig að það sé alla vega hægt að bjóða krabbameinssjúklingum upp á að velja sér meðferð. Meðferð sem gæti sparað ríkinu stórlega í kostnaði við krabbameinslyf og ef vel tekst til bjargað heilsu fjölda fólks. Eða ætlum við í blindni að fylgja ráðleggingum framleiðenda krabbameinslyfjanna?

Höfundur er matreiðslumeistari og heilsuráðgjafi. heilsulindheidars@simnet.is

Höf.: Heiðar Ragnarsson