Skot Þorsteinn Gauti Hjálmarsson, leikmaður Fram, kemur skoti á mark Hauka.
Skot Þorsteinn Gauti Hjálmarsson, leikmaður Fram, kemur skoti á mark Hauka. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÁSVELLIR Jóhann Ólafsson johann@mbl.is Framarar eru einum sigri frá því að tryggja sér sæti í undanúrslitum Íslandsmóts karla í handknattleik eftir 33:32-sigur á Haukum eftir framlengdan leik í gær.

ÁSVELLIR

Jóhann Ólafsson

johann@mbl.is

Framarar eru einum sigri frá því að tryggja sér sæti í undanúrslitum Íslandsmóts karla í handknattleik eftir 33:32-sigur á Haukum eftir framlengdan leik í gær. Þetta var fyrsti leikur liðanna í 8 liða úrslitum, en vinna þarf tvo leiki til að komast í undanúrslit og eru Framarar því með pálmann í höndunum.

Fram, liðið sem flestir sérfræðingar spáðu falli úr Olísdeildinni, lék frábærlega í fyrri hálfleik. Varnarleikur gestanna úr Safamýri virðist hafa komið Haukum í opna skjöldu, eða í það minnsta lentu þeir í miklum vandræðum gegn áköfum leikmönnum Fram. Gestirnir léku ákveðna og framliggjandi vörn og þvinguðu Hauka til að gera mörg mistök, en heimamenn töpuðu boltanum alls níu sinnum í fyrri hálfleik og Framarar voru fimm mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik.

Íslandsmeistarar Hauka vöknuðu til lífsins og jöfnuðu metin þegar seinni hálfleikur var tiltölulega nýhafinn og héldu þá eflaust flestir að þeir myndu valta yfir gesti sína. Framarar voru ekki á þeim buxunum og náðu aftur nokkurra marka forskoti. Ævintýralegur lokakafli tryggði Haukum framlengingu, en Ivan Ivkovic skaut boltanum milli fóta Viktors Gísla Hallgrímssonar þegar vallarklukkan sýndi 59 mínútur og 59 sekúndur.

Einhverjir hefðu aftur haldið að Framarar myndu bogna í framlengingunni en þeir voru ótrúlega nálægt því að tryggja sér sigurinn í venjulegum leiktíma og í raun klaufar að missa leikinn niður í jafntefli. Þeir virtust lítið kippa sér upp við það og framlengingin var æsispennandi. Liðin skiptust á að skora og það var hornamaðurinn Þorgeir Bjarki Davíðsson sem kórónaði frábæran leik sinn þegar hann skoraði áttunda mark sitt og sigurmarkið í leiknum þegar sex sekúndur voru til leiksloka.

Haukar fengu gullið tækifæri til að jafna metin þegar Arnar Birkir Hálfdánarson braut á Hákoni Daða Styrmissyni og Haukar fengu vítakast. Leiktíminn rann út og því var ljóst að ekkert væri eftir nema vítið. Undirritaður var byrjaður að búa sig undir aðra framlengingu, enda hafði Guðmundur Árni Ólafsson skorað úr öllum fjórum vítaskotum sínum fram að því. 16 ára strákurinn Viktor Gísli Hallgrímsson hafði hins vegar engan áhuga á því að spila meiri handbolta, varði vítið og tryggði Fram sigur í gríðarlega skemmtilegum leik.

Framarar fögnuðu sigrinum vel og innilega með stuðningsmönnum sínum að leik loknum, en stemningin í liðinu og í kringum það virðist mjög góð. Leikmenn liðsins virkuðu einnig hæfilega kærulausir fyrir leik, en þeir hlógu, sungu með lögum í upphitun og virtust koma afslappaðir til leiks.

Áðurnefndur Þorgeir var besti maður Fram en Arnar Birkir, Viktor Gísli og Sigurður Örn Þorsteinsson léku einnig vel. Liðsheildin hjá Fram er góð og leikmenn berjast hver fyrir annan.

Haukar þurfa að spila betur í vörn og sókn ef þeir vilja ekki fara í sumarfrí á morgun. Þeir virkuðu stressaðir og áhugalitlir á löngum köflum í gær en voru samt nálægt því að kreista fram sigur.