Ólafur Þ. Hallgrímsson
Ólafur Þ. Hallgrímsson
Eftir Ólaf Hallgrímsson: "Afleiðingin verður meira böl og stóraukinn kostnaður fyrir samfélagið. Er hægt að tala öllu skýrar?"
Í þriðja sinn er komið fram á Alþingi frumvarp þess efnis, að heimila skuli sölu á áfengi í matvöruverslunum og afnema einkaleyfi ÁTVR á sölu áfengra drykkja. Að þessu sinni koma flutningsmenn úr fjórum flokkum og fyrsti flutningsmaður Teitur Björn Einarsson. Tvö síðustu áfengisfrumvörp voru svæfð, en nú á að reyna til þrautar með nýkjörnu þingliði. Það er brýnt að auka aðgengi að áfengi, svo fólk geti keypt sér flösku í Bónus, um leið og það kaupir í matinn, segja flutningsmenn. Þá vaknar spurningin. Í hverra þágu er verið að vinna? Allar kannanir, sem gerðar hafa verið, sýna að meirihluti landsmanna er andvígur breytingum á áfengissölu og telur, að núverandi fyrirkomulag hafi reynst farsælt og að hér skuli ríkja aðhaldssöm stefna í áfengismálum, sem einnig er í samræmi við áherslur Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO), sem margoft hefur látið frá sér fara, að besta forvörn í áfengismálum sé að takmarka aðgengi að áfengi, svo sem kostur er. Með frumvarpinu er því ekki verið að framfylgja vilja meirihluta þjóðarinnar. Má ekki ætla, að flutningsmönnum frumvarpsins eigi eftir að vera ljóst, að með auknu aðgengi að áfengi muni neysla þess aukast, eins og allar rannsóknir sýna? Telja þeir ástæðu til að auka áfengisneyslu á Íslandi? Þeirri spurningu verða þeir að svara fyrst. Landlæknir, Birgir Jakobsson, hefur tjáð sig um frumvarpið og lýst samþykkt þess, ef að yrði, sem brjálæði. Hann segir, að verði frumvarpið samþykkt muni það auka áfengisneyslu í landinu um allt að 40 prósent. Í mestri hættu verði ungt fólk og fólk á öllum aldri, sem sé veikt fyrir víni, sem eigi auðveldara með að nálgast áfengi eftir breytinguna. Afleiðingin verður meira böl og stóraukinn kostnaður fyrir samfélagið. Er hægt að tala öllu skýrar. Í sama streng hefur tekið fjöldi lækna og hjúkrunarfólks, sem tjáð hefur sig um málið í ræðu og riti. Þetta er í rauninni það, sem hver maður með sæmilega heilbrigða skynsemi veit með sjálfum sér. Allir nema flutningsmenn frumvarpsins. Þá varðar ekkert um rök og láta varnaðarorð heilbrigðisstétta sem vind um eyru þjóta. Þá varðar ekkert um, að áfengisneysla er nú í dag stærsta heilbrigðisvandamál þjóðarinnar, ein helsta orsök ofbeldis og upplausnar heimila, ótímabærra dauðsfalla og glæpa, auk tapaðra vinnustunda og heilsufarskostnaðar, sem samfélagið í heild verður að bera. Ekkert af þessu virðist koma þessu áhugafólki um áfengi við. Það er ákveðið í að ganga erinda gróðaaflanna og verslunarinnar, sem vill maka krókinn á áfengisgróðanum. Auk náttúrulega dekursins við sig sjálft. Gerir þetta fólk ekki greinarmun á réttu og röngu? Einu sinni var spurt: Á ég að gæta bróður míns? Kannski þykir það úrelt spurning í dag, þegar einstaklingshyggja og gróðafíkn veður hvarvetna uppi í þjóðfélaginu, þar sem hver á aðeins að hugsa um sjálfan sig og hrifsa til sín sem mest með sem minnstri fyrirhöfn. Alþingismenn eru kjörnir til að sýna ábyrgð með velferð þegnanna í huga. Vonandi eru enn nógu margir þingmenn á Alþingi í öllum flokkum með næga ábyrgðartilfinningu til að fella þetta frumvarp. Meirihluti þjóðarinnar vill það burt.

Höf. er fyrrv. sóknarprestur.