Skólastrákar Í grunnskóla í Þorlákshöfn eru í dag um 220 nemendur. Litlu þyrfti þó að breyta og ekkert að stækka svo skólinn tæki við 300 krökkum
Skólastrákar Í grunnskóla í Þorlákshöfn eru í dag um 220 nemendur. Litlu þyrfti þó að breyta og ekkert að stækka svo skólinn tæki við 300 krökkum — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Innviðir byggðarlagsins eru sterkir. Íbúum hér mætti fjölga um alls að 500 manns án þess að sveitarfélagið færi í miklar fjárfestingar. Hér er allt til staðar, segir Gunnsteinn R.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Innviðir byggðarlagsins eru sterkir. Íbúum hér mætti fjölga um alls að 500 manns án þess að sveitarfélagið færi í miklar fjárfestingar. Hér er allt til staðar, segir Gunnsteinn R. Ómarsson, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Ölfuss. Á þess vegum var nýlega hrundið af stað átaksverkefninu Hamingjan er hér sem miðar að því að fjölga íbúum í Þorlákshöfn, sem í dag eru um 1.600 talsins. Staðurinn er kynntur sem góður staður til að búa á og í auglýsingum er höfðað til fjölskyldufólks með vísan til góðs grunnskóla, íþróttaaðstöðu og fleira.

Gunnsteinn Ómarsson segir viðbrögðin við þessari kynningu hafa verið góð. Margar fyrirspurnir hafi borist, svo sem til stjórnenda skóla og annarra eftir atvikum. „Nei, það er ekki svo langt um liðið síðan við ýttum þessu úr vör að við sjáum viðbrögðin komin fram í fasteignasölu eða fjölgun íbúa. En þetta lofar góðu og vonandi gerist eitthvað merkjanlegt á næstu mánuðum,“ segir bæjarstjórinn.

Fjölda lóða úthlutað

Það var fyrir um tveimur árum sem fyrstu hugmyndir um kynningarverkefnið komu fram. Á þeim tíma stóð nokkur fjöldi íbúða og húsa í bænum auður – á sama tíma og húsnæðisskortur á höfuðborgarsvæðinu er vaxandi. Í nýjasta hverfinu í Þorlákshöfn er einnig fjöldi lausra lóða og þar gætu byggingarframkvæmdir hafist strax.

„Síðan í desember í fyrra höfum við úthlutað 20 lóðum og þar eru framkvæmdir hafnar eða að hefjast. Og þarna horfa þeir sem lóðirnar fá meðal annars til þess að þurfa aðeins að borga gatnagerðargjöld. Hér eru lóðir ekki seldar.“ Segir Gunnsteinn þetta eiga sinn þátt í hagstæðu fasteignaverði í bænum. Fleiri áhrifaþættir komi þó til, en nefna megi að algengt fermetraverð íbúðareigna í Reykjavík sé um 300 þúsund krónur en helmingi lægra á Suðurlandi. Gangverð á tveggja herbergja blokkaríbúð á höfuðborgarsvæðinu og ágætu einbýlishúsi í Þorlákshöfn sé svipað.

Í grunnskólanum í Þorlákshöfn eru í dag um 220 nemendur. Engu þyrfti hins vegar að breyta og ekkert að stækka svo skólinn tæki við um 300 krökkum, enda var nemendafjöldinn lengi á því róli. Þá er ágæt sundlaug í bænum og stórt íþróttahús sem stendur til að stækka, meðal annars til að bæta fimleikaaðstöðu. Endurbætur á leikskólanum standa fyrir dyrum en þegar þeim lýkur seinna á þessu ári er allt til reiðu.

Atvinnulífið hefur breyst

Atvinnulíf í Þorlákshöfn hefur breyst mikið á undanförnum árum og aflaheimildir sjávarútvegsfyrirtækja verið seldar upp. Veiðar og vinnsla á fiski er þó eftir sem áður undirstaða atvinnulífsins í bænum, þó svo að nýjar víddir hafi bæst við svo sem ferðaþjónusta og fiskeldið er í sókn. Þá eru fyrir mörg iðnfyrirtæki fyrir í bænum og síðastliðinn föstudag hófst reglulegar siglingar ferjunnar Mykiness milli Þorlákshafnar og Rotterdam í Hollandi á vegum færeyska skipafélagsins Smyril-Line

„Við finnum fyrir áhuga hjá forsvarsmönnum ýmissa fyrirtækja að setja sig hér niður. Fyrir nokkrum árum var mjög horft til Þorlákshafnar sem ákjósanlegs staðar fyrir stóriðju. Ekkert slíkt er í augsýn og því er nú fremur horft til lítilla og meðalstórra fyrirtækja,“ segir Gunnsteinn.

Stutt til Reykjavíkur

Að hinu leytinu segir Gunnsteinn ljóst að margir telji það einfaldlega góðan kost að búa eystra og sækja vinnu á höfuðborgarsvæðið. Ætlað sé, samkvæmt bestu upplýsingum, að rúmur þriðjungur eða nær helmingur þeirra rúmlega 800 einstaklinga sem eru á vinnumarkaði í Þorlákshöfn sæki vinnu á höfuðborgarsvæðið. Nokkuð sé líka um að dæmið snúi í hina áttina.