Hjólreiðakappinn Tómas við Kleifarvatn í byrjun ársins.
Hjólreiðakappinn Tómas við Kleifarvatn í byrjun ársins. — Ljósmynd/Gassi
Tómas Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri Codlands, á 40 ára afmæli í dag. Codland er fyrirtæki sem vinnur að því að fullnýta sjávarafurðir og framleiða úr þeim hágæða vörur með sjálfbærni að leiðarljósi.

Tómas Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri Codlands, á 40 ára afmæli í dag. Codland er fyrirtæki sem vinnur að því að fullnýta sjávarafurðir og framleiða úr þeim hágæða vörur með sjálfbærni að leiðarljósi. Codland er í eigu grindvísku útgerðarfyrirtækjanna Vísis og Þorbjarnar. Í fyrra kom út á markaðinn collagen heilsudrykkurinn Alda frá Codland.

„Okkar fókus hefur verið að vinna collagen prótín úr þorskroði og núna er stóra verkefnið undirbúa byggingu heilsuvöruverksmiðju úti á Reykjanesi nálægt Reykjanesvirkjun. Við ætlum að nýta gufuna frá Reykjanesvirkjun í vinnslu á collageninu.“

Tómas stundar alls konar hreyfingu sér til skemmtunar og heilsubótar. „Ég er í fótbolta, crossfit og hjólreiðum. Spilaði með öllum yngri flokkunum í Grindavík í fótbolta og hef tekið þátt í ýmsum keppnum í hjólreiðum. Ég hjóla oft frá heimili mínu úr Hafnarfirði í vinnuna á Granda og er stundum fljótari að því en á bílnum.

Ætli maður bjóði ekki nánustu ættingjum í kaffi og kökur og hafi það rólegt með fjölskyldunni,“ segir Tómas þegar hann er spurður hvað hann ætli að gera í tilefni dagsins.

Eiginkona Tómasar er Sonja Björk Elíasdóttir, sem vinnur á skrifstofunni hjá Lyfjavali. Börn þeirra eru Sandra Ýr 22 árs, Elísa Sól, en hún lést 12 ára að aldri árið 2011, Lúkas Nói 9 ára og Karítas Ylfa 6 ára.