Fyrsta sinn Karlalið Aftureldingar varð bikarmeistari í fyrsta sinn.
Fyrsta sinn Karlalið Aftureldingar varð bikarmeistari í fyrsta sinn. — Morgunblaðið/Ófeigur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
BLAK Skúli Unnar Sveinsson skuli@mbl.is Það var boðið upp á sannkallaða blakveislu í Laugardalshöll í gær þegar bikarúrslitaleikirnir í karla- og kvennaflokki fóru fram.

BLAK

Skúli Unnar Sveinsson

skuli@mbl.is

Það var boðið upp á sannkallaða blakveislu í Laugardalshöll í gær þegar bikarúrslitaleikirnir í karla- og kvennaflokki fóru fram. Afturelding átti lið í báðum leikjunum og gerðu þau sér lítið fyrir og sigruðu, karlarnir í fyrsta sinn en konurnar vörðu titilinn frá því í fyrra.

Fyrir fram var búist við að Stjarnan myndi hafa betur í karlaflokki en að leikur Mosfellinga og HK í kvennaflokki yrði jafnari.

Karlarnir riðu á vaðið og úr varð æsispennandi leikur sem endaði 3:2 fyrir Aftureldingu, sem mætti nú í fyrsta sinn til leiks á lokahelgi bikarkeppninnar. Mosfellingar unnu 27:25 í fyrstu hrinu eftir að hafa verið 24:18 undir. Ótrúlegur viðsnúningur þar sem Stjörnumenn fóru hreinlega á taugum.

Þeir höfðu þó betur í næstu tveimur hrinum, 25:13 og 25:20, og voru því í fínum málum þrátt fyrir tap í fyrstu hrinu. En Mosfellingar vita að leikur er ekki búinn fyrr en hann er búinn. Þeir unnu 25:23 í fjórðu hrinu og því varð að leika oddahrinu. Þar lentu þeir undir 13:11 en gerðu síðan síðustu fjögur stigin og fögnuðu fyrsta bikarmeistaratitli sínum.

„Það er gott að vera minna liðið og okkur líður vel þannig. Við spiluðum ekki vel í undanúrslitunum og ákváðum að gera betur í dag. Liðið lék mjög vel og eigum við ekki að segja að við höfum sýnt karakter?“ sagði Alexander Stefánsson, besti leikmaður Aftureldingar, sposkur í leikslok.

Kvennaleikurinn var geysilega skemmtilegur á að horfa, bæði lið börðust eins og ljón, sóttu vel þegar færi gafst og lágvörnin var ekki síðri auk þess sem margar sóknir stöðvuðu á góðri hávörn.

Leikurinn endaði 3:0 fyrir Aftureldingu, sem sigraði 28:26, 25:20 og 26:24; heildarstig urðu því 79:70. Miðað við hversu jafn leikurinn var má segja að sigurinn hefði getað lent hvorum megin sem var. Þessu var Kristín Salín Þórhallsdóttir, uppspilari Aftureldingar og besti maður leiksins, ekki sammála.

„Nú fundum við leið til að vinna þær eftir að hafa tapað þrisvar fyrir þeim í vetur í mjög jöfnum leikjum. Við lögðum upp með ákveðið kerfi og leikurinn spilaðist eins og við vildum, þannig að ég er ekki sammála að þetta hefði getað farið 3:0 fyrir HK. Mér fannst þetta bara nokkuð sannfærandi hjá okkur í dag,“ sagði Kristín Salín.

Miðað við leikina í gær má búast við skemmtilegri úrslitakeppni.