Í víking Thea Imani Sturludóttir verður í Noregi næsta vetur.
Í víking Thea Imani Sturludóttir verður í Noregi næsta vetur. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
HANDBOLTI Ívar Benediktsson iben@mbl.is Thea Imani Sturludóttir, landsliðskona í handknattleik, hefur ákveðið að yfirgefa Fylki og leika með Volda í Noregi á næsta keppnistímbili. Þjálfari Volda er Halldór Stefán Haraldsson.

HANDBOLTI

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

Thea Imani Sturludóttir, landsliðskona í handknattleik, hefur ákveðið að yfirgefa Fylki og leika með Volda í Noregi á næsta keppnistímbili. Þjálfari Volda er Halldór Stefán Haraldsson. Hann tók við liðinu fyrir ári eftir að hafa þjálfað kvennalið Fylkis í fimm ár. Hann þekkir því vel til Theu, sem er örvhent skytta sem stendur á tvítugu. Þetta hefur Morgunblaðið samkvæmt heimildum.

Volda varð í öðru sæti C-deildar í Noregi á dögunum. Stefnan er að styrkja liðið til viðbótar og fara upp í B-deild að ári. Samningurinn við Theu er fyrsti liðurinn í að styrkja Volda-liðið fyrir frekari átök, en óvíst er að fleiri íslenskar handknattleikskonur verði í þeim hópi.

Thea Imani var markahæsti leikmaður Fylkis í Olísdeildinni sem lauk á laugardaginn. Hún skoraði 144 mörk í 21 leik. Það dugði skammt, þar sem Fylkisliðið féll úr deildinni. Thea hefur leikið 12 A-landsleiki og skorað átta mörk auk þess sem hún hefur einnig leikið marga leiki með yngri landsliðunum.

Halldór fékk viðurkenningu

Halldór Stefán fékk á dögunum viðurkenningu frá Volda á lokahófi félagsins, svokallaðan Bakkeprisen sem veittur er einstaklingi sem talinn er hafa lyft Grettistaki í starfsemi félagsins undanfarið ár.