Reykjavíkurflugvöllur Ríki og borg gerðu samkomulag um niðurrif og brottflutning flugskýla við Skerjafjörð sem voru í eigu einkaaðila.
Reykjavíkurflugvöllur Ríki og borg gerðu samkomulag um niðurrif og brottflutning flugskýla við Skerjafjörð sem voru í eigu einkaaðila. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Vilhjálmur A. Kjartansson vilhjalmur@mbl.is Reykjavíkurborg fylgdi ekki eigin reglum um kaup og sölu fasteigna, sem eru frá 15.

Vilhjálmur A. Kjartansson

vilhjalmur@mbl.is

Reykjavíkurborg fylgdi ekki eigin reglum um kaup og sölu fasteigna, sem eru frá 15. febrúar 2015, í samkomulagi sem borgin gerði við ríkið um niðurrif og brottflutnings flugskýla við Reykjavíkurflugvöll að sögn Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur, borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina.

„Flugskýlin voru inni á því landi sem ríkið seldi Reykjavíkurborg árið 2013 og bar ríkinu að skila landinu kvaðalausu. Jafnframt var samið um að ríki og borg myndu skipta með sér kostnaði sem hlytist af brottflutningi flugskýla á svæðinu. Vegna aðkomu borgarinnar verðum við að gera þá kröfu að borgin fylgi eigin reglum,“ segir Sveinbjörg.

Verðum að gæta jafnræðis

Tvö flugskýli, skrifstofuhúsnæði og geymsla voru keypt á fasteignamatsverði að frátöldu lóðarmati. Fasteignamat fasteigna án lóðarréttinda nam 35,2 milljónum króna og segir Sveinbjörg að leita hefði átt verðmats.

„Auðvitað er ánægjulegt fyrir skattgreiðendur að fá sem lægst verð, þótt ég sé ekki endilega að segja það staðreyndina hér, og að sama skapi sem hæst verð þegar eignir eru seldar, en þegar settar eru reglur verður að fara eftir þeim. Þær eru ekki settar að ástæðulausu,“ segir Sveinbjörg og vísar m.a. til sölu borgarinnar á byggingarréttinum á lóð við Gelgjutanga sem Festir, fasteignarfélag í eigu Ólafs Ólafssonar, keypti af borginni, en þar var byggt á gömlu 11 mánaða gömlu verðmati, sem og sölu á Laugavegi 4-6 og Skólavörðustíg þar sem verðmatið var 15 mánaða.

„Reglurnar eru m.a. til að tryggja jafnræði, þannig að ekki sé verið að braska með sölu lóða eða beita óeðlilegum aðferðum við ráðstöfun á fasteignum.“

Sveinbjörg óskaði eftir skriflegu svari vegna málsins í borgarráði á fimmtudag. Samkvæmt upplýsingum frá borgarlögmanni hefur fyrirspurn Sveinbjargar ekki verið tekin fyrir enn.