— Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Vegna páskanna hefur verið gert hlé á fundum Alþingis eins og venja er. Síðasti þingfundurinn var fimmtudaginn 6. apríl og næst mun þing koma saman mánudaginn 24. apríl næstkomandi.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Vegna páskanna hefur verið gert hlé á fundum Alþingis eins og venja er. Síðasti þingfundurinn var fimmtudaginn 6. apríl og næst mun þing koma saman mánudaginn 24. apríl næstkomandi.

Nú er farið að líða á seinni hluta 146. löggjafarþingsins. Þingið kom saman óvenjuseint, eða 6. desember. Það var vegna þingkosninganna í lok október. Hlé var svo gert á þingfundum vegna jólahlés frá 22. desember til 24. janúar.

Samkvæmt starfsáætlun Alþingis er áformað að seinasti þingfundardagur verði 31. maí næstkomandi. Fram að þeim tíma eru á dagskrá 15 þingfundir og að auki eldhúsdagsumræður. Nefndafundadagar eru áformaðir 10. til 16. maí. Þinglok gætu dregist fram yfir 31. maí eins og dæmin sanna.

Nú þegar einn og hálfur mánuður er til þingloka er ekki úr vegi að skoða hvaða þingmenn hafa talað mest á yfirstandandi þingi og hvaða þingmenn hafa talað minnst.

Kolbeinn Proppé sjónarmun á undan félaga sínum Bjarkeyju

Tveir þingmenn Vinstri grænna eru í nokkrum sérflokki. Nýliðinn Kolbeinn Óttarsson Proppé er sjónarmun á undan Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, ræðudrottningu síðasta þings.

Kolbeinn hefur flutt 79 ræður og gert 130 athugasemdir og talað í samtals 575 mínútur, eða tæpar 10 klukkustundir samtals. Bjarkey hefur flutt 67 ræður og gert 70 athugasemdir og talað í samtals 569 mínútur. Píratinn Smári McCarthy er í þriðja sæti, hefur talað í 435 mínútur. Margreyndur ræðukóngur síðustu áratuga, Steingrímur J. Sigfússon, er nú í 14. sæti.

Listarnir eru í samræmi við það sem tíðkast hefur í gegnum árin. Stjórnarandstæðingar tala mest og lengst en stjórnarþingmenn sjaldnar og minna. Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra er eini þingmaður stjórnarmeirihlutans sem kemst á listann yfir 10 efstu, en hann hefur talað í samtals 355 mínútur.

Aðrir þingmenn á lista yfir 10 efstu eru Katrín Jakobsdóttir VG, Björn Leví Gunnarsson Pírati, Elsa Lára Arnardóttir Framsóknarflokki, Samfylkingarþingmennirnir Oddný Harðardóttir og Logi Einarsson og loks Andrés Ingi Jónsson VG.

Eva Pandora Baldursdóttir Pírati er sá þingmaður sem minnst hefur talað. Hún hefur flutt tvær ræður, samtals 4 mínútur. Þess er að geta að Eva Pandóra hefur verið í veikindaleyfi. Gunnar Hrafn Jónsson Pírati hefur talað í 9 mínútur, en hann var einnig í veikindaleyfi um nokkra hríð. Páll Magnússon, Sjálfstæðisflokki, hefur talað í 16 mínútur og Framsóknarmaðurinn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson í 21 mínútu.

Hafa talað í 200 klukkustundir

Það sem af er þinginu hafa þingmenn flutt 2.562 ræður og gert 2.107 athugasemdir. Þeir hafa talað samtals í tæpar 200 klukkustundir.

Á síðasta þingi, 145. löggjafarþinginu talaði Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir oftast og lengst. Hún talaði samtals í 2.054 mínútur í ræðustól Alþingis, flutti 247 ræður og gerði 281 athugasemd. Hún var í ræðustólnum í samtals 34 klukkustundir.