Kjartan Friðriksson fæddist 22. mars 1927. Hann lést 27. mars 2017. Útför Kjartans fór fram 5. apríl 2017.

Elsku tengdapabbi minn, nú ertu farinn frá okkur og kominn til Grétu þinnar. Margar góðar stundir höfum við átt saman frá því ég kom inn í fjölskyldu þína. Við unnum saman í nokkur ár í Vélsmiðju Njarðvíkur er við Inga bjuggum í Njarðvíkunum. Eitt er mér mjög minnisstætt, er við buðum í verkefni við að slá fram teina í eldi sem voru notaðir við að reka niður og festa mót meðfram „Keflavíkurveginum“. Það fengu allir í smiðjunni tækifæri til að bjóða í þetta verk. Við vorum lægstir. Aðrir menn sem unnu þarna líka og buðu í verkið sögðu að við myndum ekkert hafa út úr þessu vegna þess hversu lágt tilboðið var miðað við önnur.

Við fengum ákveðna fjárhæð fyrir hvert stykki og skiptu stykkin tugþúsundum. Þarna unnum við vel saman og lærði ég, ungur maðurinn, að vinna hratt og vel því þú varst reyndur og duglegur eldsmiður. Þegar við vorum búnir að slá fram teina í eina viku kom forstjóri fyrirtækisins, Magnús Kristinsson heitinn, og bað okkur um að hægja á verkinu vegna þess að þetta gekk svo vel og voru menn farnir að pirrast yfir velgengninni. Við höfðum mjög gott út úr þessu vegna dugnaðar og kunnáttu þinnar.

Þegar við Inga dóttir ykkar fluttum til Hafnarfjarðar selduð þið hjónin einbýlishús ykkar ári seinna og fluttuð í Kvíholtið til okkar og voruð í eitt og hálft ár á meðan þið biðuð eftir nýju íbúðinni ykkar sem var í byggingu í Norðurbænum. Ég man eftir því hvað þið voruð spennt að flytja í nýju stóru íbúðina og búa ykkur til heimili í Hafnarfirði. Þarna var ég byrjaður að vinna í Skipasmíðastöðinni Bátalóni og þú réðst þig einnig þar. Þar unnum við saman í mörg ár en þú vannst þar í rúm tuttugu ár þar til þú fórst á ellilífeyrinn.

Þær voru ekki fáar útilegurnar sem við fórum saman og ættarmótin. Þið voruð einnig dugleg að koma til okkar í sumarbústaðinn við Apavatn. Þið voruð oft hjá okkur um páskana í bústaðnum og þær stundir voru yndislegar og var oft glatt á hjalla. Stundum lentum við í brasi við að koma okkur heim eftir páskana vegna veðurs, en veturnir á þessum tíma voru oft ansi harðir.

Við áttum okkar góðu stundir saman í frítímum þegar við vorum að brasa í húsinu ykkar Grétu í Garðabænum, en þið keyptuð parhús sem þið tókuð alveg í gegn.

Oft voru heitar umræður um pólitík og ýmis málefni og þú áttir það til að hrista upp í mannskapnum með skoðunum þínum.

Þú byrjaðir snemma að vinna og varst ungur er þú stofnaðir þína fjölskyldu. Já, Kjartan minn, þú hafðir sterkar skoðanir á lífinu og óhætt er að segja að þær mótuðu þig og gerðu þig að þeim manni sem þú varst.

Guð blessi þig, elsku Kjartan minn, og hafðu þökk fyrir allt.

Þinn tengdasonur

Salómon.