[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hálfdán fæddist á Akranesi 12.4. 1957 en þá bjuggu foreldrar hans á Hvanneyri þar sem faðir hans stundaði kennslu. Fjölskyldan bjó um tíma á Súðavík og á Vegamótum á Snæfellsnesi en 1962 fluttu þau að Nesi í Aðaldal þar sem foreldrar hans hófu búskap.

Hálfdán fæddist á Akranesi 12.4. 1957 en þá bjuggu foreldrar hans á Hvanneyri þar sem faðir hans stundaði kennslu. Fjölskyldan bjó um tíma á Súðavík og á Vegamótum á Snæfellsnesi en 1962 fluttu þau að Nesi í Aðaldal þar sem foreldrar hans hófu búskap. Þar liðu bernsku- og unglingsárin við leik og störf eins og tíðkaðist í sveitum þeirra ára.

„Ég er líklega einn af fáum sem alist hafa upp á bökkum Laxár án þess að fá svokallaða veiðibakteríu. Þessi mikla náttúruperla lét mig þó ekki ósnortinn. Það jafnast fátt og kannski ekkert á við að eiga kyrrláta stund á bakkanum og njóta þess sem fyrir augu og eyru ber.“

Barnaskólinn var fyrstu árin farskóli og líklega með síðustu stofnunum af því tagi í íslensku skólakerfi. Barnaskólanámi lauk Hálfdán í gamla barnaskólanum í Aðaldal og svo lá leiðin í Laugar í Reykjadal þar sem hann lauk landsprófi 1973.

Örnólfur, faðir Hálfdáns, lést sumarið 1972, aðeins 55 ára að aldri. Móðir hans, Arndís, hélt áfram búskap í Nesi og var Hálfdán heima við veturinn 1973-74. Haustið 1974 hóf hann nám við MA, lauk stúdentsprófi 1978 og kynntist þar Hugrúnu, eiginkonu sinni.

Árið 1979 hélt Hálfdán til Gautaborgar til náms og starfa, m.a. á færibandinu hjá Volvo, til 1984 er hann lauk BS-gráðu í þjóðhagfræði.

Hálfdán var ráðinn kennari við VMA haustið 1984 og hefur starfað þar æ síðan, lengst við kennslu, en árin 1987-99 var hann kennslustjóri, og aðstoðarskólameistari 2000-2006. Hálfdán gaf sig nokkuð að bæjarmálum á Akureyri um tíma og sat m.a. í kjarasamninganefnd, atvinnumálanefnd og stjórn Iðnþróunarfélags Eyjafjarðar. Hann sat einnig í nefndum er fjölluðu um þróun í skólastarfi og kom þar einkum að málum er vörðuðu fjarkennslu. Í dag er hann formaður stjórnar HL-stöðvarinnar á Akureyri.

Hálfdán hefur samið námsefni, skrifað greinar í blöð um ýmis þjóðmál og fyrir jólin 2015 gaf hann, á eigin vegum, út smásagnakverið Þrjár sögur. Áhugamál Hálfdáns eru helst að njóta góðrar útivistar með fjölskyldu og vinum. Þar skipa fornar eyðibyggðir á Vestfjörðum sérstakan sess svo sem Skálavík, Keflavík og Hornstrandir.

„Ég hef alla tíð haft áhuga á samfélagsmálum í breiðum skilningi og um leið áhyggjur af því hvert stefnir á ýmsum sviðum svo sem í umhverfismálum. Það er stórkostlegt áhyggjuefni hvernig mannkynið lætur fljóta að feigðarósi í stjórnlausri markaðs- og neysluhyggju. Ég tel að sú samfélagsgerð sem mótaðist og dafnaði á Norðurlöndum á síðustu öld, fyrst og fremst undir forystu frjálslyndra jafnaðarmanna, sé sú góða fyrirmynd sem heimurinn mætti horfa til. Tage Erlander, forsætisráðherra Svíþjóðar, hafði þann sið að bjóða ráðamönnum, sem sóttu hann heim, í róðrartúr á litlum árabáti og átti mikilvæg samtöl við menn á borð við Nikita Krústsjoff, úti á miðju stöðuvatni í friði og ró, sem var aðeins rofin af fuglakvaki og öldugjálfri. Þetta mættu valdamenn í dag taka sér til fyrirmyndar.“

Fjölskylda

Eiginkona Hálfdáns er Hugrún Sigmundsdóttir, f. 30.1. 1961, leikskólastjóri í leikskólanum Krummakoti í Eyjafjarðarsveit.

Foreldrar hennar eru Sigmundur Benediktsson, f. 15.3. 1936, vélvirkjameistari og ljóðskáld á Akranesi, og Elín Kjartansdóttir, f. 13.9. 1934, fyrrverandi bóndi á Vatnsenda í Eyjafjarðarsveit og síðar starfsmaður í heimaþjónustu á Akureyri. .

Börn Hálfdáns og Hugrúnar eru 1) Arnhildur Hálfdánardóttir, f. 24.4. 1988, fréttamaður á RÚV, búsett í Reykjavík en sambúðarmaður hennar er Ægir Örn Ingvason tölvunarfræðingur; 2) Örnólfur Hlynur Hálfdánarson, f. 19.8. 1992, fæst við ýmis störf m.a. fyrir Gallup, búsettur á Akureyri, og 3) Kjartan Hálfdánarson, f. 30.5. 1996, framhaldsskólanemi og starfsmaður hjá Greifanum, búsettur á Akureyri.

Systkini Hálfdáns eru 1) Sigríður M. Örnólfsdóttir, f. 8.1. 1956, leikskólakennari og rithöfundur í Reykjavík, og 2) Steingerður Örnólfsdóttir, f. 4.10. 1971, hjúkrunarfræðingur á Akureyri.

Foreldrar Hálfdáns voru Örnólfur Örnólfsson, f. 18.5. 1917, d. 23.7. 1972, búfræðingur frá Hvanneyri og Landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn, búnaðarráðunautur og kennari og síðar bóndi í Nesi í Aðaldal, og k.h., Arndís Steingrímsdóttir, f. 21.9. 1931, d. 11.1. 2004, húsfreyja og bóndi í Nesi, síðar matráðskona á Akureyri.