Húsnæði Að mati Íbúðalánasjóðs er heildarþörf á íbúðarhúsnæði á næstu þremur árum alls 9.000 íbúðir. Sjóðurinn vann greiningu að beiðni ráðherra.
Húsnæði Að mati Íbúðalánasjóðs er heildarþörf á íbúðarhúsnæði á næstu þremur árum alls 9.000 íbúðir. Sjóðurinn vann greiningu að beiðni ráðherra. — Morgunblaðið/Eggert
Kristján H. Johannessen khj@mbl.is Greining Íbúðalánasjóðs á vöntun á húsnæðismarkaði hér á landi hefur leitt í ljós að uppsafnaður mismunur á framboði og eftirspurn íbúðarhúsnæðis er um 4.600 íbúðir, sé tekið tillit til þess að um 1.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Greining Íbúðalánasjóðs á vöntun á húsnæðismarkaði hér á landi hefur leitt í ljós að uppsafnaður mismunur á framboði og eftirspurn íbúðarhúsnæðis er um 4.600 íbúðir, sé tekið tillit til þess að um 1.600 íbúðir séu á hverjum tíma í skammtímaleigu til ferðamanna. Þá er heildarþörf á uppbyggingu á íbúðarhúsnæði á næstu þremur árum alls 9.000 íbúðir.

Er sagt frá þessu í tilkynningu á heimasíðu Velferðarráðuneytisins, en greiningin var unnin að beiðni Þorsteins Víglundssonar, félags- og jafnréttismálaráðherra.

„Þegar meta skal hver þörfin er fyrir húsnæði er mikilvægt að skoða hversu mikið íbúðum hefur fjölgað undanfarin ár og leggja mat á birgðastöðu á landsvísu. Á árunum fyrir hrun fjölgaði íbúðum mun meira en um 1.700 íbúðir á ári,“ segir í greiningu Íbúðalánasjóðs, en almennt er talið að íbúðum þurfi að fjölga u.þ.b. um 1.700 á ári á landinu öllu til þess að mæta eðlilegri þróun.

„Íbúðum fjölgaði að meðaltali um tæplega 3.900 á ári á árunum 2005-2008, en svo tók við tímabil þar sem mjög lítið var byggt. Á árunum 2009 til 2013 fjölgaði að meðaltali um 621 íbúð á landinu öllu,“ segir þar einnig.

Ferðamönnum fjölgað um 80% á síðastliðnum tveimur árum

Skýrsluhöfundar benda einnig á að mikil fjölgun ferðamanna hingað til lands hafi haft talsverð áhrif á framboð íbúða, en á síðasta ári komu um 1,8 milljónir ferðamanna hingað og hefur þeim fjölgað um 80% á síðastliðnum tveimur árum. „Á sama tíma hefur framboð á hótelgistirými ekki aukist nema um 40% samkvæmt gögnum Hagstofunnar. Ætla má að ferðamenn séu því í auknum mæli í heimagistingu, tjöldum eða að nýta sér annars konar gistimáta,“ segir í greiningu Íbúðalánasjóðs.

Þá er bent á að tölur um fjölda landsmanna sem bjóða fram íbúðir sínar til heimagistingar, eða Airbnb-leigu, séu óaðgengilegar þar sem slíkt kemur ekki fram í opinberri skráningu. Notast skýrsluhöfundar hins vegar við erlenda gagnasíðu um Airbnb-skráningar víðs vegar um heim. Samkvæmt henni voru í lok febrúar sl. alls 5.820 einingar á skrá til leigu hér á landi og þar af voru um 4.900 heilar íbúðir.

„Af þessum 5.820 einingum voru 3.587 skráðar á höfuðborgarsvæðinu. Airbnb-skráningum alls hefur fjölgað um ríflega 1.000 hér á landi á um það bil hálfu ári, sem verður að teljast mikil aukning á tímum þar sem mikill skortur er á framboði húsnæðis,“ segir í skýrslu.

Sölutími á hraðri niðurleið

Þá benda höfundar einnig á að upp úr áramótum 2007/2008 safnaðist upp framboð á sölusíðum fasteigna. Tók þá að meðaltali allt að tvö ár að selja fasteign. „Eftir 2008 var lítið byggt og svo virðist sem umfram birgðir íbúða hafi verið að fullu nýttar í kringum áramótin 2012/2013 þegar framboð fasteigna á sölusíðum minnkaði mjög hratt ásamt því að meðalsölutími fasteigna styttist niður í örfáa mánuði,“ segir í greiningu sjóðsins.