— Morgunblaðið/RAX
Listaverkið Fjallamjólk eftir Jóhannes S. Kjarval var hengt upp á Kjarvalsstöðum í gær og verður þar til sýnis næstu mánuði. Fjallamjólk, sem er eitt kunnasta verk Kjarvals, er í eigu Listasafns ASÍ og hefur ekki komið fyrir almenningssjónir í nokkur...

Listaverkið Fjallamjólk eftir Jóhannes S. Kjarval var hengt upp á Kjarvalsstöðum í gær og verður þar til sýnis næstu mánuði. Fjallamjólk, sem er eitt kunnasta verk Kjarvals, er í eigu Listasafns ASÍ og hefur ekki komið fyrir almenningssjónir í nokkur ár.

„Það var að frumkvæði Listasafns ASÍ að til tals kom að verkið væri vel komið á sýningu þar sem fólk hefði aðgang að því og við töldum að nú væri tækifærið til þess að bregðast við því,“ segir Ólöf K. Sigurðardóttir, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur.

Á Kjarvalsstöðum stendur yfir sýning á lykilverkum Kjarvals úr safneign Listasafns Reykjavíkur og segir Ólöf Fjallamjólkina falla vel inn í þá sýningu, sérstaklega þann hluta sem fjallar um náttúrusýn Kjarvals. „Það er gaman að sjá verkið í samhengi við önnur verk Kjarvals á þessari sýningu,“ segir Ólöf.

Verkið var málað á Þingvöllum og sýnir Flosagjá með Ármannsfell í bakgrunni. Það var upphaflega í eigu systursonar Kjarvals en Ragnar Jónsson í Smára eignaðist það síðar, hann færði ASÍ það og allt listaverkasafn sitt að gjöf árið 1961. Sagan hermir að fyrsti stjórnandi MoMA-safnsins í New York, Alfred H. Barr, hafi í heimsókn sinni til Íslands hrifist mjög af Fjallamjólk og falast eftir verkinu til kaupa fyrir safnið en Ragnar gat ekki hugsað sér að verkið færi úr landi. „Það má alltaf deila um það hvort það hefði verið áhugavert fyrir Kjarval og íslenska listasögu að MoMA eignaðist verkið á þessum tímapunkti. Það munum við aldrei vita, en verkið er gríðarlega gott og gaman að geta gert það aðgengilegt á Kjarvalsstöðum,“ segir Ólöf.

ingveldur@mbl.is