Óttarr Proppé
Óttarr Proppé
Heilbrigðisráðherra hefur undirritað reglugerð um greiðslur fólks fyrir heilbrigðisþjónustu í nýju greiðsluþátttökukerfi auk reglugerðar um tilvísanir barna. Nýtt kerfi tekur gildi 1. maí.

Heilbrigðisráðherra hefur undirritað reglugerð um greiðslur fólks fyrir heilbrigðisþjónustu í nýju greiðsluþátttökukerfi auk reglugerðar um tilvísanir barna. Nýtt kerfi tekur gildi 1. maí. Með nýja kerfinu munu þeir sem meira þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda greiða minna fyrir þjónustu en í núverandi kerfi, en þeir sem sjaldnar þurfa að nýta sér heilbrigðisþjónustu að greiða meira en áður.

Sett verður þak á hámarksútgjöld sjúklinga með nýju kerfi, þar sem lagt er upp með að lífeyrisþegar og börn greiði minnst. Aldraðir og öryrkjar munu greiða að hámarki 46.467 kr. á 12 manaða tímabili en aldrei meira en 16.400 á mánuði. Reiknast greiðslur sjúklings honum til afsláttar næst þegar hann þarf á þjónustu að halda, en þeir lífeyrisþegar sem hafa áunnið sér fullan afslátt og sækja mánaðarlega heilbrigðisþjónustu greiða að hámarki 32.800 á 12 mánaða tímabili.

Hámarksgreiðslur barna verða þær sömu og hjá lífeyrisþegum en börn munu ekki greiða fyrir komu á heilsugæslu eða til heimilislæknis.

Almennir notendur munu að hámarki greiða 69.700 á tólf mánaða tímabili og mest 24.600 á mánuði, en þeir sem hafa áunnið sér fullan afslátt þegar kerfið tekur gildi og þurfa mánaðarlega að sækja sér heilbrigðisþjónustu greiða að hámarki 49.200 á 12 mánaða tímabili.

Ríkið mun auka fjármuni til greiðsluþátttöku um 1,5 milljarða á ársgrundvelli, sem á heildina litið mun lækka hlutdeild sjúkratryggðra í heilbrigðiskostnaði, að því er fram kemur í tilkynningu frá velferðarráðuneytinu. elinm@mbl.is