Stockton Tjörvi gefur eina af fjölmörgum línusendingum sínum í gær.
Stockton Tjörvi gefur eina af fjölmörgum línusendingum sínum í gær. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Safamýri Kristján Jónsson kris@mbl.is Íslandsmeistarar Hauka knúðu fram oddaleik gegn Fram í rimmu liðanna í 8 liða úrslitum Íslandsmóts karla í handbolta, Olísdeildarinnar, í Safamýri í gærkvöldi.

Í Safamýri

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Íslandsmeistarar Hauka knúðu fram oddaleik gegn Fram í rimmu liðanna í 8 liða úrslitum Íslandsmóts karla í handbolta, Olísdeildarinnar, í Safamýri í gærkvöldi. Haukar unnu þá annan leik liðanna 28:24 og höfðu yfir að loknum fyrri hálfleik, 14:11.

Sigur meistaranna var verðskuldaður. Þeir voru yfir nánast allan tímann. Jafnt var í stöðunni 1:1 en eftir það voru Haukar yfir. Leikurinn var þó nokkuð jafn í fyrri hálfleik en í upphafi síðari hálfleiks tókst Haukum að slíta sig frá Frömurum. Fram skoraði ekki fyrstu tólf mínúturnar og það er bara of mikið ef menn ætla sér að senda Íslandsmeistarana í sumarfrí. Haukar náðu þá sjö marka forskoti og virtust vera með leikinn í hendi sér.

Leikmenn Fram eru hins vegar ólseigir og héldu áfram að berjast. Smám saman nöguðu þeir muninn aðeins niður. Sú staða kom upp að þremur mörkuðum munaði þegar tæpar þrjár mínútur voru eftir. Þeir fengu dauðafæri til að minnka muninn í tvö mörk en Giedrius Morkunas varði og innsiglaði sigur Hauka. Morkunas varði jafnt og þétt í leiknum og átti fínan leik á heildina litið. Varði hann 16 skot og fékk á köflum fína hjálp frá vörninni.

Í sókninni hjá Haukum spilaði Tjörvi Þorgeirsson í skyttustöðunni og dældi sendingum inn á línuna. Var það afar skynsamlegt því Framarar spiluðu framliggjandi vörn og tókst ágætlega að halda aftur af helstu skyttum Hauka. Handboltagreindarvísitala Tjörva er há og það sást svo vel í gærkvöldi. Hann og Jón Þorbjörn Jóhannsson brugðu sér í hlutverk Johns Stockton og Karls Malone. Tjörvi sendi boltann upp í loftið, Jón Þorbjörn greip með annarri og kom póstinum á rétt heimilisfang. Framarar eiga í raun engan leikmann sem hefur líkamlega burði til að halda aftur af Jóni eða Heimi Óla Heimissyni og skoruðu línumennirnir samtals 10 mörk.

Talandi um líkamlega burði er stórmerkilegt að horfa á lið Fram veita liði Hauka hörkukeppni. Framarar hafa ekki sentímetrana, kílóin né reynsluna. En samt eru þeir í úrslitakeppninni og enn á lífi gegn meisturunum. Guðmundur Helgi Pálsson er að mínu mati þjálfari ársins, en ég eins og fleiri taldi að „flótti“ síðasta sumars úr Safamýrinni gæti ekki þýtt annað en fall úr deildinni. Getur hann komið okkur á óvart einu sinni til viðbótar?