Havaí Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er mætt til leiks í Kyrrahafinu.
Havaí Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er mætt til leiks í Kyrrahafinu. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Golf Sindri Sverrisson sindris@mbl.is „Ég er búin að undirbúa mig vel og hlakka til að byrja.

Golf

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

„Ég er búin að undirbúa mig vel og hlakka til að byrja. Völlurinn er skemmtilegur,“ segir Ólafía Þórunn Kristinsdóttir sem hefur leik á sínu fimmta móti á LPGA-mótaröðinni í golfi laust fyrir miðnætti í kvöld. Ólafía keppti síðast á Kia Classic í Kaliforníu 23.-24. mars en er nú komin til Havaí-eyja í Kyrrahafinu, nánar tiltekið á Ko Olina-golfvöllinn í Kapolei. Þar fer Lotte Championship-mótið fram næstu fjóra daga.

„Ég mætti síðasta föstudag og er búin að nýta tímann hérna til að sjá og kynnast aðstæðum. Ég er samt ekki ennþá búin að venjast tímabeltinu og er að vakna klukkan fimm á morgnana,“ sagði Ólafía glaðbeitt að vanda, við Morgunblaðið í gær. Hún dvelur í húsi með hinni þýsku Söndru Gaal, sem keppir nú tíunda árið í röð á mótaröðinni, en hún var skipuð af LPGA sem eins konar leiðbeinandi fyrir Ólafíu sem er nýliði:

„Það er gaman að vera með henni hérna. Hún er leiðtogi hópsins míns. Ég spyr hana bara um allt sem mér dettur í hug, til dæmis varðandi það hvernig og hvaða styrktaraðila hún fékk og slíkt,“ sagði Ólafía.

Hærra verðlaunafé en áður

Ólafía var ekki með á síðasta móti LPGA-mótaraðarinnar, ANA Inspiration-risamótinu, en hefur leikið á fjórum af sex mótum ársins. Hún leikur nú um hærra verðlaunafé en hún hefur áður gert en Hershey-súkkulaðiframleiðandinn sér til þess að alls eru 2 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði 225 milljóna króna, í boði á mótinu. Þar af fær sigurvegarinn um 34 milljónir króna í sinn hlut.

„Ég á alltaf góða möguleika held ég. Ég þarf bara að spila vel,“ sagði Ólafía, en besti árangur hennar til þessa er 30. sæti sem hún náði á Opna ástralska mótinu í febrúar. Hún komst einnig í gegnum niðurskurðinn á fyrsta móti ársins, á Bahamaeyjum, og varð í 69. sæti. Á síðustu tveimur mótum hefur hún verið tveimur höggum frá því að komast í gegnum niðurskurðinn, sem jafnan er gerður eftir tvo keppnisdaga af fjórum.

Í ráshópi með Park og Choi

Ólafía er í einum af síðustu ráshópunum í kvöld og slær af 1. teig um kl. 23.45 að íslenskum tíma. Hún er í ráshópi með hinni bandarísku Annie Park, sem best hefur náð 6. sæti á LPGA-móti, og hinni suðurkóresku Hye-jin Choi sem 16 ára gömul leiddi Suður-Kóreu til sigurs á HM áhugamanna í fyrra.

Hin ástralska Minjee Lee, sem þá var aðeins 19 ára, fagnaði sigri á Lotte-mótinu í fyrra en það var annar af tveimur sigrum hennar á mótaröðinni í fyrra. Auk Lee eru þær Michelle Wie og Ai Miyazato, sem einnig hafa unnið Lotte-mótið, meðal keppenda í ár. Lotte-mótinu eru einnig sigurvegarar fimm móta LPGA-mótaraðarinnar í ár, þar á meðal So Yeon Ryu sem vann ANA Inspiration-risamótið með hádramatískum hætti. Lexi Thompson, sem missti af sigrinum á því móti eftir að sjónvarpsáhorfandi benti á mistök hennar sem kostuðu hana fjögur refsihögg, er hins vegar ekki með. So Yeon Ryu er næstefst á heimslistanum og hin nýsjálenska Lydia Ko, sem verið hefur efst á listanum í 76 vikur samfleytt, er einnig meðal keppenda.