Kópavogur Landsréttur verður í húsnæði að Vesturvör 2 á Kársnesi.
Kópavogur Landsréttur verður í húsnæði að Vesturvör 2 á Kársnesi. — Morgunblaðið/Golli
Andri Steinn Hilmarsson ash@mbl.is Landsréttur, nýtt millidómstig sem tekur til starfa 1.

Andri Steinn Hilmarsson

ash@mbl.is

Landsréttur, nýtt millidómstig sem tekur til starfa 1. janúar 2018, verður fyrst um sinn í Kópavogi, en unnið er um þessar mundir að undirbúningi komu Landsréttar í húsnæði sem Siglingastofnun hafði áður til umráða að Vesturvör 2 á Kársnesi. Breyta þarf húsnæðinu og laga það að þörfum dómstólsins, en stýrihópur um húsnæðismálin er að störfum innan ráðuneytisins, m.a. skipaður dómurum og öðrum sem unnið hafa að þarfagreiningu fyrir sambærilegt húsnæði.

Skipað í dóminn fyrir þinglok

Dómstóllinn hefur heimild til að vera utan Reykjavíkur í bráðabirgðahúsnæði í fimm ár, en lengi hefur verið til skoðunar að byggja á Stjórnarráðsreitnum og hefur hann verið nefndur sem framtíðarhúsnæði Landsréttar ásamt stjórnarráðsbyggingu og hugsanlega Héraðsdómi Reykjavíkur.

Sigríður Andersen dómsmálaráðherra segir að gert sé ráð fyrir góðri aðstöðu í húsnæði Landsréttar við Vesturvör. Þar verða þrír dómsalir og góð aðstaða fyrir lögmenn, auk þess sem dómarar og starfsmenn munu hafa góðar skrifstofur. Þá þarf að vanda til verka við tæknilegu hliðina, en gert er ráð fyrir að skýrslutökur og vitnaleiðslur verði teknar upp í hljóði og mynd í héraðsdómstólunum, svo að aðstaða þarf að vera fyrir hendi til að spila upptökurnar.

Auglýst var eftir 15 dómurum nýverið og rann umsóknarfrestur út 28. febrúar. Sigríður segir að nú fari nefnd sem falið er að meta hæfni umsækjenda yfir umsóknirnar. Skilar nefndin af sér í maí og gerir Sigríður í kjölfarið tillögu til Alþingis um dómskipan. Stefnt er að því að þetta klárist fyrir þinglok í maí að sögn Sigríðar.