[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Orðaskeyti flugu á milli ráðamanna í Bandaríkjunum og Norður-Kóreu í gær eftir að Norður-Kóreumenn sögðust tilbúnir að „mæta Bandaríkjunum á hvaða vígvelli sem er“.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Orðaskeyti flugu á milli ráðamanna í Bandaríkjunum og Norður-Kóreu í gær eftir að Norður-Kóreumenn sögðust tilbúnir að „mæta Bandaríkjunum á hvaða vígvelli sem er“. Kveikjan að yfirlýsingu Norður-Kóreumanna var fregnir af því að bandarísk flotadeild væri á leiðinni að Kóreuskaganum, en Norður-Kóreumenn kölluðu þá aðgerð „undirbúning að innrás“. Sögðu Norður-Kóreumenn að Bandaríkin myndu axla alla ábyrgð af þeim hörmungum sem myndu fylgja í kjölfarið.

Donald Trump Bandaríkjaforseti svaraði fyrir sitt leyti á samfélagsmiðlinum Twitter, þar sem hann sagði Norður-Kóreumenn vera að „leita sér að vandamálum“. Ítrekaði hann að ef Kínverjar vildu aðstoða við að leysa vandamálið sem fælist í kjarnorkuvopnabúri Norður-Kóreumanna væri það frábært en að öðrum kosti væru Bandaríkjamenn tilbúnir að grípa sjálfir til aðgerða.

Norður-Kóreumenn búa sig annars undir að fagna 105 ára afmæli Kim Il-sung, stofnanda ríkisins, á laugardaginn, en risastór hersýning var haldin í gær til undirbúnings hátíðahöldunum, þar sem þúsundir hermanna marséruðu um götur höfuðborgarinnar Pjongjang.

Hwang Pyong-so, yfirmaður stjórnmáladeildar hersins, sagði í ræðu að ef Bandaríkin og Suður-Kórea reyndu að „tendra í blossa stríðs yrði öllum innrásarmönnunum eytt án verksummerkja með kjarnorkuárás okkar að fyrra bragði“.

Tvö ár í langdræga eldflaug?

Sérfræðingar hafa spáð því að Norður-Kóreumenn muni meðal annars halda upp á tímamótin um helgina með því að gera tilraun með kjarnorkusprengju. Það yrði sjötta tilraun Norður-Kóreumanna með kjarnorkuvopn, en að auki hafa þeir á síðustu mánuðum reynt að þróa langdrægar eldflaugar sem gætu borið slík vopn að vesturströnd Bandaríkjanna.

Hwang Kyo-ahn, forsætisráðherra og sitjandi forseti Suður-Kóreu, varaði til að mynda sérstaklega við þeim möguleika að Norður-Kóreumenn myndu nýta tímamótin til þess að ögra alþjóðasamfélaginu.

Þá hafa leyniþjónustumenn í Kóreu og í Bandaríkjunum varað við því að tilraunum Norður-Kóreumanna með eldflaugar miði vel áfram og að hugsanlega séu minna en tvö ár í að þeir öðlist getuna til þess að varpa kjarnorkusprengju á meginland Bandaríkjanna.

Kínverjar, helstu bandamenn Norður-Kóreu, hafa rætt þessi mál við bæði bandaríska og kóreska embættismenn, þar á meðal á fundi Trumps með Xi Jinping, forseta Kína. Kínverjar munu hafa lýst yfir vilja sínum til þess að herða á refsiaðgerðum gegn Norður-Kóreu, láti þeir ekki af tilraunum sínum. Þá er litið á eldflaugaárás Bandaríkjanna á Sýrland í síðustu viku, sem átti sér stað á meðan Xi heimsótti Trump, sem viss skilaboð til Norður-Kóreu.