Í bakaríinu Mikki refur hótar Hérastubbi bakara öllu illu, fái hann ekki allar kökurnar, í Dýrunum í Hálsaskógi.
Í bakaríinu Mikki refur hótar Hérastubbi bakara öllu illu, fái hann ekki allar kökurnar, í Dýrunum í Hálsaskógi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leistjóri: Rasmus A. Sivertsen. Handrit: Karsten Fullu.

Leistjóri: Rasmus A. Sivertsen. Handrit: Karsten Fullu. Helstu leikarar í íslenskri talsetningu: Orri Huginn Ágústsson, Ævar Þór Benediktsson, Viktor Már Bjarnason, Ragnheiður Steindórsdóttir, Jóhann Sigurðarson, Sigríður Eyrún Friðriksdóttir, Örn Árnason, Sigurður Þór Óskarsson, Þórhallur Sigurðsson, Hanna María Karlsdóttir og Steinn Ármann Magnússon. Leikstjóri talsetningar: Tómas Freyr Hjaltason. Þýðing: Haraldur Jóhannsson. Byggt á leikverksþýðingu Huldu Valtýsdóttur. Þýðing söngtexta: Kristján frá Djúpalæk. Noregur, 2016. 75 mín.

kvikmyndir

Laugarásbíó, Smárabíó, Háskólabíó, Borgarbíó, Sambíóin Keflavík, Selfossbíó, Bíóhöllin Akranesi, Ísafjarðarbíó, Króksbíó og Skjaldborgarbíó

Hin sígilda og sívinsæla saga Thorbjørns Egner, Dýrin í Hálsaskógi , er nú loksins komin á hvíta tjaldið í formi „stop motion“-kvikmyndar sem er, líkt og leikritið, hin besta skemmtun fyrir fólk á öllum aldri.

Leikstjóri myndarinnar sagði í viðtali við Morgunblaðið fyrir fáeinum dögum að erfingjar Egners hefðu verið hikandi við að selja réttinn að því að kvikmynda ævintýrið en treyst honum og öflugum hópi kvikara (e. animators) fyrir verkinu og hafa þeir eflaust ekki séð eftir því. Útkoman er virkilega falleg kvikmynd og vel gerð, með flestum frábæru lögunum úr leikritinu sem ungir sem aldnir bíógestir ættu að þekkja. Þau eru í líflegri útsetningu norsku hljómsveitarinnar Katzenjammer, sem einkennist af kontrabassa og fjörugum trommuleik, og bráðvel sungin af íslensku leikurunum í talsetningunni.

Það er líklega óþarfi að rekja söguþráð Dýranna í Hálsaskógi , ólíklegt að sá sem þetta les þekki hana ekki. En ef svo ólíklega vill til að þú, lesandi góður, þekkir ekki söguna segir hún í stuttu máli af dýrum sem búa í Hálsaskógi og eru orðin langþreytt á þeirri ógn sem stafar af Mikka refi og Patta broddgelti sem eru sífellt að reyna að éta þau. Með einfaldri lagasetningu tekst þeim að koma á friði í skóginum. Lögin eru svohljóðandi: Fyrsta grein: Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir. Önnur grein: Ekkert dýr má borða annað dýr. Þriðja grein: Sá sem er latur og nennir ekki að afla sér matar má ekki taka mat frá öðrum. Þessi lög mætti mannfólkið taka sér til fyrirmyndar og boðskapur sögunnar er mikilvægur á hvaða tíma sem er.

Þegar Bangsa litla er rænt af vondum hjónum sem búa á sveitabæ í útjaðri skógarins reynir á samtakamátt dýranna og þau vinna saman að því að bjarga húninum úr klóm vonda mannfólksins. Kemur sér þá vel að vera með þefvísan ref í liði með sér og mýs sem geta smeygt sér inn um litlar rifur og holur.

Brúðurnar eru skemmtilega hannaðar og þá sérstaklega Patti broddgöltur og ógurlegur hundur bóndahjónanna, Habbakúk, og leikmyndirnar eru litríkar og fallegar. Sem fyrr segir er tónlistin sérstaklega skemmtilega útsett og hraðanum breytt í einstaka lagi, t.d. hinum sígilda „Piparkökusöng“ Hérastubbs bakara og bakaradrengsins (sem reyndar er ekki drengur heldur héri). Þegar Amma mús svífur svo með regnhlífina um loftin blá og syngur (Ragnheiður Steindórsdóttir í essinu sínu) verða foreldrar aftur börn og brosið nær eyrna á milli. Og þegar Patti broddgöltur birtist, forljótur og spaugilegur að sjá, og fer að tala með óborganlegri rödd Ladda, verður brosið að innilegum hlátri.

Kvikmyndin er auðvitað styttri en leikritið og bókin og einhverju hefur þurft að sleppa til að hraða á framvindu sögunnar. Í raun er hér um fullkomna lengd á barnamynd að ræða, 75 mínútur, en þegar svona skemmtileg saga er annars vegar hefði maður gjarnan viljað hafa hana örlítið lengri. Íslensku leikararnir eiga sérstakt hrós skilið fyrir einstaklega vel heppnaða og líflega talsetningu og auðvitað leikstjóri hennar líka. Betra verður það varla.

Ef fólk kann á annað borð að meta söguna um Dýrin í Hálsaskógi verður það ekki svikið af þessari útgáfu.

Helgi Snær Sigurðsson

Höf.: Helgi Snær Sigurðsson