Neyðarlög sett í Egyptalandi við erfiðar aðstæður

Ríki íslams hefur lýst yfir ábyrgð sinni á hinum skelfilegu fólskuverkum sem framin voru í Egyptalandi á pálmasunnudag, þegar rúmlega fjörutíu kirkjugestir voru myrtir í tveimur sprengingum við ósa Nílarfljóts. Skotmörkin voru sérstaklega valin til þess að valda sem mestu manntjóni meðal kristna minnihlutans í landinu, en Ríki íslams hefur áður beint spjótum sínum að honum.

Koptar, sem eru einn elsti kristni söfnuðurinn í heiminum, hafa lengi þurft að glíma við ofsóknir og áreiti frá múslimum í Egyptalandi. Með uppgangi öfgastefna innan íslams á síðustu árum hefur þetta magnast mjög. Um síðustu jól létust 29 manns, þegar jólamessa í Alexandríu var gerð að skotmarki Ríkis íslams. Nú réðust sömu samtök að páskahaldinu, helgustu hátíð kristinnar kirkju, og ekkert bendir til annars en að koptar geti búið sig undir að sæta frekara ofbeldi.

Þegar núverandi forseti, Abdel Fattah al-Sisi, náði völdum árið 2013 önduðu margir koptar léttar. Ólíkt fyrirrennara sínum, Mohamed Morsi, hefur Sisi lagt áherslu á það að mismunun gegn minnihlutahópum verði ekki leyfð. Til þess að undirstrika þau skilaboð hefur Sisi mætt undanfarin ár á jólamessu í kirkju kopta og hefur tekið hart á íslömskum öfgahópum, sem hatast jafnt út í hann og kopta.

Aðferðir Sisis hafa hins vegar vakið gagnrýni. Hann hefur sótt skipulega að mál- og prentfrelsi í Egyptalandi, og þó að stjórnarskrá landsins eigi að heita lýðræðisleg eru taumar valdsins hnýttir kirfilega saman í hnefa Sisis. Á sama tíma hefur efnahagsleg viðreisn landsins eftir krepputíma tekið lengri tíma en Sisi lofaði. Hið ótrygga ástand hefur eyðilagt ferðaþjónustuna og aðgerðir stjórnvalda hafa eingöngu dugað til þess að blása upp verðbólgu og auka á atvinnuleysi meðal ungra Egypta, sem aftur verða þá ginnkeyptari fyrir öfgunum.

Allt er þetta gert í nafni öryggis, enda byggist öll valdaseta Sisis á því að hann sé sterki maðurinn sem hafi komið á stöðugleika eftir upplausn arabíska vorsins. Árásirnar á pálmasunnudag eru því áfall fyrir hann af ýmsum ástæðum. Fyrir það fyrsta sá þær efasemdum meðal kopta um það hvort stuðningurinn við Sisi hafi gert þá enn berskjaldaðri fyrir árásum öfgamanna. Þá sýna árásirnar að íslamistar hafa þrátt fyrir allar öryggisráðstafanir Sisis enn getu til þess að láta til skarar skríða, jafnvel í nærsveitum höfuðborgarinnar Kaíró.

Viðbrögð Sisis við árásunum koma því ekki á óvart. Hann hefur sett á neyðarlög næstu þrjá mánuði, sem eiga að gera öryggissveitum landsins kleift að takast betur á við öfgamennina. Stóra spurningin er hins vegar sú hvort eitthvað verði eftir af lýðréttindum Egypta þegar baráttunni við hryðjuverkamennina sleppir.