[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kling og Bang í Marshall-húsinu. Ásgerður Birna Björnsdóttir, Árni Jónsson, Berglind Erna Tryggvadóttir, Hrefna Hörn Leifsdóttir, Sara H. Rosengarten, Leifur Ýmir Eyjólfsson, Melanie Ubaldo, Rúnar Örn Marinósson.

Kling og Bang í Marshall-húsinu. Ásgerður Birna Björnsdóttir, Árni Jónsson, Berglind Erna Tryggvadóttir, Hrefna Hörn Leifsdóttir, Sara H. Rosengarten, Leifur Ýmir Eyjólfsson, Melanie Ubaldo, Rúnar Örn Marinósson. Sýningarstjórar: Ingibjörg Sigurjónsdóttir, Daníel Björnsson og Anna Hrund Másdóttir. Sýningin stendur til 15. apríl 2017. Opið miðvikudaga til sunnudaga kl. 12-18 og til kl. 21 á fimmtudögum.

Eftir tæplega tveggja ára hlé á sýningarhaldi opnar Kling og Bang nýtt sýningarrými í Marshall-húsinu við Grandagarð. Lokkandi pönnukökuilmur liggur í loftinu þegar rýnir tekur hús á opnunarsýningunni Slæmur félagsskapur, þar sem átta listamenn, tiltölulega nýlega útskrifaðir úr námi, sýna ný verk unnin með blönduðum miðlum, s.s. málverk, skúlptúra, vídeó, gjörninga og innsetningar. Saman mynda Berglind Erna Tryggvadóttir og Rúnar Örn Marinósson listamannatvíeykið 1224 en verk þeirra, „A study of international objects nr.12: Crepes as movement“, er innsetning í fremsta rými salarins þar sem þau hafa skapað umgjörð um pönnukökustað sem þau kalla Dawson's Crepes. Í fyrstu sýningarvikunni bökuðu listamennirnir ofan í sýningargesti en bjuggu líka til skúlptúra úr pönnukökum með því að koma þeim fyrir á borðviftum, þar sem þær storknuðu og tóku á sig form. Tvö myndbandsverk af listamönnunum í dansi eru hvort sínu megin við verk sem sýnir senur úr bandarísku sápuóperunni Dawson's Creek. 1224 velta fyrir sér mörkum listgreina, hreyfingu og dansi sem listformi en einnig mat og matarupplifun þar sem lykt virkjar skynfærin og athafnir við matargerðina koma hreyfingu á hráefnið. Fegurðin verður til í augnabliki hins hversdagslega gjörnings, hér er ekkert nýmæli á ferðinni, ræturnar liggja í hugmyndum og efnisvali Fluxus-listamanna, samruna listar og lífs þar sem enginn efniviður er æðri en annar. Ilmurinn af bakstrinum er óneitanlega notalegur en hér skortir e.t.v. upp á beittari efnistök.

Gríðarstórt verk Melanie Ubaldo úr samsettum bútum af málningarstriga blasir við gestum gegnum glugga fyrir ofan inngang Marshall-hússins og setur svip sinn á sýningarrýmið. Titill verksins: „Not to be rude but...What are you doing in Iceland with your face“ er málaður með rauðri málningu á myndflötinn. Listamaðurinn vísar í staðhæfingar og kynþáttafordóma sem hún hefur upplifað á eigin skinni. Hvenær verður maður Íslendingur? Þegar maður hefur búið hér í 5 ár, 10 ár eða 20 og talar lýtalausa íslensku? Melanie hefur búið á Íslandi á annan áratug en asískt útlit hennar breytist auðvitað ekki (frekar en annarra) hvar svo sem við búum í heiminum. Verkið er ágeng staðhæfing, hispurslaust viðbragð við virðingarleysi og fordómum. Setning sem byrjar á „Ég ætla ekki að vera dónaleg/ur...en“ getur aldrei orðið annað en særandi.

Ásgerður Birna Björnsdóttir veltir fyrir sér efni og ekki-efni í innsetningunni „Tveir hnullungar af þoku“ sem teygir úr sér milli sýningarrýma. Í videóhluta innsetningarinnar sviðsetur listamaðurinn ímyndað samtal tveggja efnishluta sem eru áþekkir að útliti, annars vegar náttúrlegan mánastein og hins vegar efni sem er framleitt af NASA og er 98% loft. Ásgerður setur fram spurningar um vísindahyggju samtímans, hvað er efni, er hlutur sem er nánast eingöngu búinn til úr lofti hlutur eða efni, eða er jafnvel ekki til?

Innsetning Hrefnu Harnar Leifsdóttur og Söru H. Rosengarten, tjald búið til úr teppum og ýmsu útivistardóti, veltir því upp hvað þarf til að finna öruggt skjól heimilisins. Er það dótið sem við höfum valið í kringum okkur eða geta hlutir annarra veitt þessa tilfinningu? Hugmyndin um tjaldið og útópíska búsetu virkar kunnugleg og hefur stungið reglulega upp kollinum í listheiminum, „Che Fare?“ eftir Mario Merz, einn af upphafsmönnum Arte Povera, kemur til dæmis upp í hugann, en flóttamannavandi samtímans gefur verki Hrefnu og Söru nýja skírskotun.

„Stöðluð mynd af tímanum“ er tuttugu mynda málverkasería eftir Leif Ými Eyjólfsson þar sem hann vinnur með texta sem vísa í tímann, minnið og söguna. „Hvað finnst þér um fyrstu öldina“, „hvað finnst þér um aðra öldina“ og svo koll af kolli. Verkið staðsetur áhorfandann í núinu, hvað hefur gerst í sögulegu samhengi á tíma sem er löngu liðinn og hvað mun gerast í framtíðinni? Listamaðurinn setur fram spurningu sem þó er ekki spurning. Hver mynd er kveikja að verki sem verður til í huga áhorfenda, sem væntanlega upplifa það á ólíkan hátt eftir bakgrunni.

Myndbandsverk Árna Jónssonar „Það er best að labba þetta af sér“ er allrar athygli vert. Í því gengur listamaðurinn eftir glansandi hvítum vegi með hvítar byggingar til beggja handa. Fótatakið er hægt og þyngist eftir því sem á líður og inn á milli má greina óm daufra tóna. Þjáðir andlitsdrættir víkja fyrir teygðu brosi á víxl. Hann kyngir sársaukanum, harkar af sér bakverkinn og gríman er sett upp. Gríman er tvírætt fyrirbæri, hún felur bæði og sýnir og á bak við hana er eitthvað annað en það sem er sjáanlegt. Þetta er marglaga og sterkt verk á sýningu sem er nokkuð misjöfn að gæðum en alltaf áhugaverð fyrir þá sem vilja sjá hvað er að gerast í samtímalistinni hjá ungum listamönnum sem eru að hefja feril sinn.

Aldís Arnardóttir

Höf.: Aldís Arnardóttir