Fljótin Svona var umhorfs á Sólgörðum í gær, þar sem er grunnskóli, sundlaug og félagsheimili. Grátt er í fjöllum en nánast snjólaust í byggð.
Fljótin Svona var umhorfs á Sólgörðum í gær, þar sem er grunnskóli, sundlaug og félagsheimili. Grátt er í fjöllum en nánast snjólaust í byggð. — Morgunblaðið/Örn Þórarinsson
Björn Jóhann Björnsson bjb@mbl.

Björn Jóhann Björnsson

bjb@mbl.is

„Ég man bara aldrei eftir svona vetri og er ég þó búinn að eiga hérna heima í 66 ár,“ segir Örn Þórarinsson, bóndi á Ökrum í Fljótum og fréttaritari Morgunblaðsins, en óvenjusnjólétt hefur verið í Fljótum í vetur. Muna elstu menn varla eftir öðru eins og segir Örn fátt annað vera rætt en þetta óvenjulega tíðarfar, þegar Fljótamenn hafa komið saman í vetur.

„Það kom hérna smáföl í morgun [gærmorgun] en það er svo hlýtt að þetta á eftir að fara fljótt,“ sagði Örn við Morgunblaðið um hádegisbil í gær.

Til marks um snjóleysið hafa Fljótamenn orðið að færa skíðagöngumót, sem haldið hefur á föstudaginn langa nokkur undanfarin ár við Ketilás, upp á Lágheiði að þessu sinni, líkt og kom fram í Morgunblaðinu í gær.

„Þetta hefur verið mjög óvenjulegur vetur. Það hefur rignt mikið en snjóað mjög sjaldan. Ég hugsa að mesti snjórinn hafi verið í nóvember, þá kom smá gusa sem stóð nú ekki nema í einn og hálfan sólarhring,“ segir Örn.

Hefðbundinn vetur í Fljótum hefur jafnan verið snjóþungur, þá yfirleitt frá jólum eða áramótum og fram undir vor, alveg fram í júní í harðindaárferði.

Snjóleysið í vetur hefur komið sér vel fyrir skólaaksturinn en kennsla fer fram á Sólgörðum í Fljótum fyrir nemendur í 1.-7. bekk. Eldri nemendur stunda nám á Hofsósi.

„Það hefur sáralítið þurft að moka hér í vetur. Kannski hefur fallið niður kennsla í einn dag út af ófærð, þetta hefur heyrt til algjörra undantekninga,“ segir Örn.

Hann segir bændur sjá fram á óskemmd tún undan vetrinum en þeir hafi oft þurft að glíma við kalskemmdir gegnum árin.

„Verst er að fá klakann yfir allt. Við höfum sloppið betur að hafa snjóinn, hóflegur snjór gerir túnunum bara gott.“