Ein af skýringunum á frönsku byltingunni er að Skaftáreldar hafi valdið uppskerubresti í Evrópu. Gosaskan orðið til þess að andrúmsloftið snöggkólnaði.

Ein af skýringunum á frönsku byltingunni er að Skaftáreldar hafi valdið uppskerubresti í Evrópu. Gosaskan orðið til þess að andrúmsloftið snöggkólnaði. Þegar eldfjallið Pinatubo gaus á Filippseyjum árið 1991 lækkaði meðalhiti í andrúmslofti jarðar um 0,4 gráður á selsíus. Um nokkurt skeið hafa menn velt fyrir sér hvort hægt væri að framkalla kólnun af mannavöldum í andrúmsloftinu og þótt þeir hafi í fyrstu verið taldir rugludallar hefur talsmönnum þess að kanna leiðir til þess vaxið ásmegin upp á síðkastið.

Lækkun hita yrði framkölluð með því að dreifa efnisögnum í efri lögum andrúmsloftsins. Talað hefur verið um að nota fínar kalkagnir. Með þeim hætti mætti jafnvel taka úr umferð sýrur, sem skaða ósonlagið. Loftbelgir yrðu sendir upp í heiðhvolfið, sem liggur á milli veðrahvolfs og miðhvolfs, og ögnunum dreift með viftu eða hreyfli. Áhrifa slíks inngrips myndi gæta fljótt og það væri tiltölulega ódýrt. Ná mætti fram merkjanlegum áhrifum fyrir nokkra milljarða dollara á ári.

Vísindamenn hafa ekki komið auga á neinar alvarlegar neikvæðar afleiðingar þessarar aðferðar, þótt vitaskuld sé ekki hægt að sjá öll áhrif hennar fyrir.

Fyrirsjáanlegt er að margir muni hafa efasemdir um slíkt inngrip og segi sem svo að enn ætli maðurinn að leika guð, nú með því að stjórna loftslaginu.

Víkverja fannst því athyglisvert að lesa að sjálfur Dalai Lama, andlegur leiðtogi Tíbeta, hefði gripið hugmyndina á lofti þegar hann heyrði af henni á ráðstefnu í Bandaríkjunum. Vísindamenn á ráðstefnunni héldu í fyrstu að hann hlyti að hafa misskilið það sem sagt var, en Dalai Lama sagði að manninum væri ekki aðeins leyfilegt að grípa inn í með þessum hætti, honum bæri til þess siðferðisleg skylda.