Útúrsnúningur hefur aldrei þótt góður rökstuðningur

Í leiðara Morgunblaðsins í liðinni viku var bent á að ríkið gæti sparað með því að leggja af óþarfar ríkisstofnanir. Fjármunina væri nær að nota til að lækka skatta eða í þarfari verkefni. Embætti umboðsmanns skuldara, stofnun sem sett var á fót við allt aðrar aðstæður en nú ríkja, var nefnt sem dæmi um óþarfa stofnun.

Í gær ritaði umboðsmaður skuldara grein undir fyrirsögninni „Rangfærslur í leiðara Morgunblaðsins“. Þar segir umboðsmaður það rangfærslu að embættinu sé haldið úti á kostnað skattgreiðenda, þar sem ríkissjóður standi „ekki undir rekstri embættisins“. Síðar í sömu grein segir svo: „Ríkissjóður gerir ráð fyrir rekstri embættisins í fjárlögum en innheimtir rekstrarkostnaðinn með skattlagningu á [ýmis fjármálafyrirtæki]“.

Misskilningurinn sem í þessum málflutningi felst er áhyggjuefni. Umboðsmaður segir sjálfur að þetta sé skattlagning, sem þetta er. Embættið er ekki rekið fyrir frjáls framlög.

Þegar svo er komið að réttlæta þarf starfsemi opinberra stofnana með útúrsnúningi ætti löggjafinn að taka því sem sterkri vísbendingu um að starfsemin sé komin á endastöð.