Jóhanna Valdemarsdóttir fæddist 7. júní 1933. Hún lést 25. mars 2017.

Útför Jóhönnu fór fram frá Fossvogskirkju 6. apríl 2017. Minningarathöfn verður í Safnaðarheimili Akureyrarkirkju í dag, 12. apríl 2017, klukkan 10.30.

Nú er Jóhanna frænka horfin sjónum okkar en eftir situr drjúgur sjóður minninga, gleði, hláturs og innileika.

Ég man eftir þér í heyskapnum í Vallanesi þegar allt var unnið með hestum og handafli. Heimilisfólkið rifjaði, gekk í röðum fram og til baka. Ég var alltaf höfð seinust því ég var minnst og hrífan mín var minni, því ég var bara sex ára og þú orðin sextán. Ljósu flétturnar þínar dönsuðu á bakinu og söng í hrífunni. Þú varst svo sólbrún, grönn og kvik.

Ég man þig líka að slá með hestasláttuvél og eitthvað kom upp á svo hesturinn fældist og þú hlaust vænan skurð á fótinn. Það versta var að ungmennafélagið var að fara í skemmtiferð næsta sunnudag. Þá var farið á hestum fram á Mælifellsdal og svo gengið á Hnjúkinn.

Þú varst mjög mædd að missa af þessari skemmtun en dreifst þig samt með í reiðtúrinn. En þegar lagt var á fjallið lést þú hestinn rölta með og þegar þau komu upp í hjallana var upplagt að fara svolítið hærra. Þú fikraðir þig alltaf hærra og hærra, Eiríkur bróðir þinn teymdi hestinn síðasta spottann og upp komst þú. Veit ég ekki til að aðrir hestamenn hafi viðrað sig á toppi Mælifellshnjúks á fákum sínum.

Síðar kom Kjartan til sögunnar en mikill samgangur hefur alltaf verið á milli þeirra hjóna og Brekkufjölskyldunnar. Þau hófu búskap í Kaupmannahöfn og þegar ég dvaldi hjá þeim um jólin hafði heldur betur bæst í búið því Sidda var komin í heiminn. Fljótlega fluttu þau heim og ég gerðist heimagangur hjá þeim á meðan þau bjuggu í Reykjavík, en svo lengdist á milli okkar þegar þau fluttu til Eyja. Á þessum árum lærði ég hvað „fransk visit“ þýðir en þá kíktu þau inn hjá mér, við létum móðan mása í smástund, hlógum góða skvettu og svo var knús og bless.

Svo kom gosið á Heimaey og allir forðuðu sér bara eins og þeir stóðu. Jóhanna og Kjartan fóru aðeins einu sinni aftur til Eyja og höfðu aðeins smástund til að pakka niður öllum eigum sínum og koma þeim í gáminn á meðan hraungjallinu rigndi yfir. Húsið fór undir hraun.

En lífið hélt áfram og nú var tekin ný stefna. Fjölskyldan kom sér fyrir á Akureyri, þar sem Jóhanna snyrti og pússaði Akureyringa og Siddan óx úr grasi. Samhliða þessu komu þau sér upp unaðsreit hérna í Skagafirðinum á heimaslóðum Jóhönnu. Landið var ekki burðugt, bæði mýrlent og þýft.

Það var ræst fram og sléttað, plöntum stungið í mold og hús keypt. Allt var unnið af dugnaði, snyrtimennsku og alúð. Og árin liðu, trén eru orðin himinhá og barnabörnin fyrir löngu vaxin upp úr rólunum.

Jóhanna og Kjartan voru alla tíð einstaklega samrýnd og samstíga. Þau voru í eðli sínu útivistarfólk og stunduðu göngur og skíðamennsku af kappi. Þau fylgdust vel með menningarlífinu, fóru á listsýningar, í leikhús og á tónleika.

Bækur frá öllum heimshornum voru lesnar og við áttum oft gott bókaspjall.

Ég kveð nú uppáhaldsfrænku mína og samferðakonu í gegnum lífið með miklum trega og tár á hvarmi en ylja mér við bergmál hláturs liðinna daga. Við dætur mínar og barnabörn þökkum fyrir hlýju, stuðning og ljúfar samverustundir.

Valdís Óskarsdóttir

í Brekku.

„Er þetta ekki bara orðið gott?“ sagði Jóhanna móðursystir mín við mig fyrir tveimur vikum þegar við heimsóttum hana til að kveðja, enda orðið ljóst hvert stefndi. „Að hafa fengið að eiga svona gott líf, að vera ástfangin alla daga,“ bætti hún við, hló eins og unglingur og tók í höndina á Kjartani sem sat við rúmstokkinn hjá henni við hlið mér.

Þau Jóhanna og Kjartan voru eins og eitt, einstaklega samrýnd og alltaf saman. Þau undu sér best í Hálsakoti, skika í kringum bústaðinn þeirra í Varmahlíð, þar sem þau ræktuðu skóg svo mikinn að þau höfðu ekki undan að höggva hin síðari ár.

Þegar ég var að alast upp í Brekku þótti mér afskaplega hressandi þegar Jóhanna og Kjartan komu í heimsókn. Hún snaraðist inn um dyrnar og kallaði hlæjandi: „Hvar ertu, systa?“ Og mamma lyftist öll upp við þessa gestakomu. Mér þótti Jóhanna bera með sér andblæ framandi landa. Hún bar sig vel, var alltaf vel til höfð og vel til fara, einhvern veginn öðruvísi klædd en aðrir jafnvel þó aðhún væri í vinnugallanum sem hún notaði í Hálsakoti.

Að fá Jóhönnu og Kjartan í sviðaveislu var fastur liður á hverju hausti í Brekku. Það var hrein upplifun að sjá Jóhönnu fást við kjammana, maður og máltíð urðu eitt með kjamsi og ánægjustunum, kryddað með hlátri og skríkjum.

Þegar ég fór í menntaskóla á Akureyri var ég heimagangur hjá þeim Jóhönnu og Kjartani. Ósköp var gott fyrir óharðnaðan ungling sem var sendur að heiman til að búa á heimavist að eiga fastan punkt í tilverunni þar sem hægt var að koma, fá í svanginn og finna smá umhyggju. Ekki var verra að eiga Kjartan að þegar illa gekk við þýsku- eða stærðfræðinám.

Mér þótti gott að ná að heimsækja Jóhönnu í þetta síðasta skipti. Hún gekk æðrulaus að því sem verða vildi. „Veistu, frændi, að ég ætla að láta brenna mig,“ sagði hún og var greinilega búin að hugsa fyrir flestu. Þó var hún ekki búin að ákveða hvar koma ætti krukkunni með öskunni fyrir. „Ætti ég ekki að láta dreifa henni á Hóltúnið heima í Vallanesi?“ sagði hún og hló.

Mig grunar að eftir að hún losnaði úr viðjum efnisheimsins hafi hún skroppið vestur í Skagafjörð, sest um stund á hólinn á túninu í Vallanesi þar sem hún sentist fyrir hross og kindur í æsku, áður en hún hélt áfram til að vitja um sælureitinn sinn í Hálsakoti.

Ég þakka fyrir mig, frænka, það var gott að eiga þig að.

Magnús Ingi Óskarsson.