Björn Steffensen, löggiltur endurskoðandi, fæddist í Kaupmannahöfn 12.4. 1902 en ólst upp í Hafnarfirði og í Reykjavík. Foreldrar hans voru Valdimar Steffensen, læknir á Akureyri, og Theódóra Sveinsdóttir, er rak veitingasölu víða um land.

Björn Steffensen, löggiltur endurskoðandi, fæddist í Kaupmannahöfn 12.4. 1902 en ólst upp í Hafnarfirði og í Reykjavík. Foreldrar hans voru Valdimar Steffensen, læknir á Akureyri, og Theódóra Sveinsdóttir, er rak veitingasölu víða um land.

Valdimar var sonur Jóns Steffensen Stefánssonar, kaupmanns í Reykjavík, og Sigþrúðar, systur Helga Guðmundssonar, læknis á Siglufirði.

Foreldrar Theódóru voru Sveinn Magnússon, bátasmiður í Hafnarfirði, og Eyvör Snorradóttir, systir Lárusar, föður Inga T. tónskálds. Systir Eyvarar var Ágústa, móðir Lovísu, móður Arndísar Björnsdóttur leikkonu, og Ólafar, er átti Pétur Halldórsson borgarstjóra.

Björn var kvæntur Sigríði Árnadóttur Steffensen húsmóður sem lést 1985 og eignuðust þau fjögur börn.

Albróðir Björns var Valdimar sem lést ungur, en hálfsystkini hans, sammæðra, voru Sveinn Ólafsson brunavörður og Sólveig og Áslaug húsmæður. Hálfbróðir Björns, samfeðra, var hins vegar Jón Steffensen læknaprófessor, helsti hvatamaður að læknasafninu í Nesstofu.

Björn brautskráðist frá Verzlunarskóla Íslands 1919 og var við nám í Pitmans School og Polytechnic School í London 1924-27. Með náminu í London starfaði hann við endurskoðunarskrifstofu Davies Dunn og Co í London. Hann var löggiltur endurskoðandi frá 1934.

Björn starfrækti endurskoðunarskrifstofu í Reykjavík frá 1927. Hann var formaður Félags endurskoðenda 1941-44 og 1949-55 og var heiðursfélagi þess.

Björn var mikill áhugamaður um skógrækt og landvernd eins og enn má sjá á trjáreitum hans við Elliðavatn. Þá skrifaði hann fjölda greina um hin ýmsu málefni í Lesbók Morgunblaðsins um árabil.

Björn lést 15. júlí 1993.