Gunnlaugur Gunnlaugsson fæddist í Ólafsfirði 1. nóvember 1941. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Hornbrekku 5. apríl 2017.

Foreldrar hans voru Gunnlaugur Jónsson, f. 27.8. 1897, d. 15.5. 1980, og kona hans Dalla Guðrún Jónsdóttir, f. 27.3. 1914, d. 20.11. 1988. Systkini Gunnlaugs: Jón B. Gunnlaugsson, f. 21.6. 1936, d. 17.12. 1991. Hálfsystkini: Björn, f. 4.2. 1922, d. 2013, Sigurlína, f. 29.7. 1924, d. 19.5. 2015, Sigurður, f. 24.8. 1929, og Hjörtur Fjeldsted, f. 8.12. 1930.

Gunnlaugur kvæntist Birnu Thorlacius, f . 31.10. 1939, d. 1.11. 1999. Börn þeirra: 1. Dalla Gunnlaugsdóttir, f. 23.10. 1968, gift Agnari Sverrissyni, f. 8.1. 1962, börn þeirra Birna Ýr Sigurðardóttir og Gabríel Ingi Agnarsson. 2. Ágústa Gunnlaugsdóttir, f. 1.1. 1972, börn hennar Hólmfríður Rebekka Víkingsdóttir og Gunnlaug Birna Sigurðardóttir. 3. Birkir Gunnlaugsson sjómaður, f. 27.3. 1974.

Útför Gunnlaugs fer fram frá Ólafsfjarðarkirkju í dag, 12. apríl 2017, klukkan 14.

Mér finnst stutt síðan ég, lítil stelpa, hélt í höndin á þér, þú gangandi rösklega og ég valhoppandi eftir Ólafsveginum á fallegum sumardegi. Við fórum mikið í útilegur, elsku pabbi minn, okkur Birki og mömmu til mikillar ánægju. Þú varst svo góður við okkur og aldrei vorum við skömmuð, þú varst okkar besti vinur og gátum við talað um allt við þig, varst svo skilningsríkur, elsku karlinn okkar.

Mikið söknum við þín, elsku pabbi. Við vitum að þú ert kominn á góðan stað og ert hjá okkur. Takk fyrir allt, elskum þig.

Ágústa Thorl.

Gunnlaugsdóttir.