Kristján Júlíusson fæddist á Garðskagavita í Garði 11. ágúst 1933. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 31. mars 2017.

Foreldrar hans voru Júlíus R. Guðlaugsson, f. 27. júlí 1902, d. 7. desember 1973, og Sigríður Helgadóttir, f. 20. mars 1899, d. 30. desember 1989. Systir Kristjáns er Þórunn Júlíusdóttir, f. 3. október 1928, búsett í Reykjavík. Kristján giftist 17. júní 1957 Sigríði Brynjólfsdóttir frá Siglufirði, f. 12. apríl 1932, d. 7.ágúst 2002. Foreldrar hennar voru Brynjólfur Jóhannsson, f. 16. október 1891, d. 7 október 1962, og Guðrún Vilmundardóttir, f. 3. ágúst 1898, d. 21. apríl 1996. Kristján og Sigríður eignuðust fimm börn. Þau eru: 1) Brynja, f. 12. nóvember 1954, gift Gunnari H. Häsler, eiga þau 4 börn: Óttar Ara, Sigríði Björk, Karitas Söru og Guðrúnu og 6 barnabörn. 2) Sigrún, f. 12. nóvember 1954, gift Guðmundi I. Ragnarssyni, eiga þau einn son Jón Snorra og tvö barnabörn. 3) Hafdís, f. 28. janúar 1956, d. 7. september 1997, eftirlifandi eiginmaður hennar er Matthías Loftsson og eignuðust þau tvö börn, Kristján og Ernu og tvö barnabörn. 4) Júlíus, f. 6. janúar 1957, kvæntur Guðrúnu Jakobsdóttur og eiga þau þrjá syni: Kristján, Aron Snæ og Þorstein Inga. 5) Hildur, f. 17. febrúar 1963, hún á tvö börn, Birgir Júlíus og Siggu Dís og 5 barnabörn.

Kristján ólst upp á Grund í Garði og gekk í Gerðaskóla til 14 ára aldurs. Hann hóf störf hjá Varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli árið 1949 og síðan hjá Navy Exchange í þvottahúsinu á Keflavíkurflugvelli, fljótlega sem verkstjóri og síðan forstjóri. Kristján starfaði hjá Navy Exchange í 50 ár samfleytt, til ársins 2000.

Sigríður og Kristján áttu Efnalaug Suðurnesja frá árinu 1974 sem Sigríður rak í 25 ár.

Útför Kristjáns verður gerð frá Keflavíkurkirkju í dag, 12. apríl 2017, og hefst athöfnin klukkan 13.

Komdu í handarkrikann á mér er fyrsta minningin um þig, elsku pabbi, þá hafði einhver verið að skamma mig, ég vælandi en allt varð gott við að komast í handarkrikann þinn. Þú leyfðir mér að þvælast mikið með þér, enda alltaf barngóður.

Kvöldrúntarnir voru skemmtilegir, þá fórum við eitthvert í heimsókn. Ef við fórum til Siggu ömmu á Grund fékk ég að stýra bílnum út á skaga, fyrst sat ég í fanginu á þér og stýrði en eftir því sem árin liðu var ég farin að fá að keyra ein, þvílík hamingja sem því fylgdi. Vorin voru yndisleg, þá fórum við í kríueggjaleit, oft á hverju kvöldi. Þetta varð fjölskyldusport sem mörgum þótti mikið gaman af. Þegar krían var búin að verpa í visst langan tíma hættum við. Þú vildir að krían kæmi upp ungum, þessari reglu þinni breytti enginn. Þú kenndir mér margt í þessum móaferðum um fuglana, hvað þeir heita, merktir hreiður með spýtu, svo fylgdumst við með hvenær ungarnir komu úr eggjunum, sagðir mér nöfnin á jurtunum og alltaf fékk ég að heyra einhverja sögu frá því í gamla daga.

Þvottahúsið á vellinum þar sem þú varst forstjóri var draumastaður minn í nokkur ár. Þar byrjaðir þú að kenna mér að vinna, vildir að ég væri dugleg enda dugnaðarforkur sjálfur. Þegar ég varð unglingur fékk ég oft að heyra að ég væri lík þér eða eins og mamma sagði svo skemmtilega, þú ert alveg eins og kallinn, sömu lætin í ykkur.

Þið mamma reyndust mér alltaf vel, eftir að ég eignaðist Bigga Júlla bjuggum við í tvö ár hjá ykkur. Biggi Júlli fékk mikla umhyggju og athygli frá ykkur, sem varð til þess að sterk tenging varð alla tíð milli ykkar og hans. Þegar við Guðni vorum að endurbyggja Grundina, sem var æskuheimili þitt, fluttum við til ykkar um tíma með Bigga Júlla, Siggu Dís og kisuna Dísu Mjöll sem þá var kettlingafull. Þú gladdist mikið einn morguninn þegar þú sást að hún hafði valið að gjóta fimm kettlingum inni í fataskápnum þínum, enda alltaf mikill dýravinur. Við fjölskyldan sóttum mikið í ykkur mömmu, alltaf svo gott að koma til ykkar. Sigga Dís bakaði með mömmu á meðan þið Biggi Júlli fóruð í Vogana. Oft var mikið hlegið á Heiðarbrúninni og þá oftast að sögum sem þú sagðir. Að fá að fara á sjó með þér var ævintýri. Elsku pabbi, ég á svo margar minningar um þig og margt þér að þakka. Erfitt var að horfa á þig missa heilsuna en þú hélst þínum húmor og var því alltaf hægt að hlæja að og með þér.

Er ég viss um að mamma, Dísa og Gúlli með dillandi skottið hafa tekið vel á móti þér.

Elsku pabbi, minning þín mun lifa í mér og mínum.

Þín dóttir

Hildur.

Í dag kveð ég tengdaföður minn Kristján Júlíusson sem lést aðfaranótt 31. mars síðastliðinn eftir erfið veikindi síðastliðið ár. Hann var fæddur 1933 og uppalinn að Grund í Garði. Grund er annað húsið frá Garðskagavita og markaði það umhverfi áhugamál hans alla ævina. Á þeim tíma voru trillur gerðar út frá hverri vör og kríueggja og mávseggjaleit var eitt af vorverkunum sem varð alltaf mikið áhugamál hjá honum og kom Tóta systir hans á hverju vori í eggjaleit. En strax og fór að halla undan lífslíkum hjá kríuungunum síðustu 10 ár var hann í fremstu röð að friða kríuna.

Lífið var skemmtilegt og einfalt innan um gott fólk í uppvextinum og gat hann sagt margar skemmtilegar sögur af fólki sem þá var ekki allt steypt í sama mót eins og í dag. Það er ekki ofsögum sagt að hann elskaði þetta umhverfi, Garðskagann, heiðina og þar í kring.

Þegar hann er sjö ára gamall vorið 1940 verður heldur betur breyting í lífi hans þegar herinn mætti með aðstöðu á Garðskaga þar sem útbúin var flugbraut með tilheyrandi umstangi og umferð. Það er varla hægt að ímynda sér breytinguna sem verður hjá sjö ára gutta þegar flugvélar fara að lenda og taka á loft í túngarðinum hjá honum.

En strákarnir í útgarðinum voru fljótir að aðlagast aðstæðum og fóru að umgangast hermennina og fengu að smakka á ávöxtum og allskonar góðgæti sem þeir höfðu aldrei smakkað áður. Versluðu við þá með því að skipta á eggjum og sælgæti. Hann sagði einnig frá því að hermennirnir hefðu leyft þeim að vera með þeim á skotæfingum og eins og Kiddi sagði þá vildu þeir hafa strákana réttum megin við byssurnar. Hann talaði oft og mikið um þennan tíma og sagði skemmtilega frá.

Þegar hann var 15 ára fékk hann vinnu hjá Varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli og sagðist hafa logið til um eitt ár í aldri til að fá vinnu. Fljótlega fór hann að vinna í þvottahúsinu á flugvellinum. Þó að Kristján hafi aðeins haft barnaskólapróf frá Gerðaskóla, náði hann enskunni fljótt, var mjög duglegur og því gerður að verkstjóra fljótlega og síðan forstjóra. Starfið í þvottahúsinu varð hans ævistarf í 50 ár.

Það fylgdu því ýmis fríðindi að vera yfirmaður á vellinum, meðal annars aðgangur að Officeraklúbbnum. Í eitt skipti var ég að keyra hann upp í klúbb og þegar við komum til baka vorum við stoppaðir í hliðinu og Kiddi spurður hvort hann væri með eitthvað. Þá svaraði hann: „Nei, Sláni minn, ég smygla aldrei neinu nema á löglegan hátt, það er í maganum.“

Trilluútgerð og sjómennska var hans áhugamál ásamt laxveiði sem hann stundaði af krafti um árabil. Ég fór nokkrar ferðir með honum og skemmtilegum félögum hans. Eitt sinn vorum við að veiða í Þverá í Borgarfirði í neðsta hylnum þegar hann fékk 32 punda lax. Það tók hann 30-40 mínútur að landa honum og þvílík gleði og ánægja var þegar hann sat á árbakkanum með laxinn í fanginu og sagði: „Gunni hann er ábyggilega 40 pund.“

Kiddi hafði gaman af því að segja sögur og nutum við sem vorum í kringum hann enda ekki langt að sækja frásagnarhæfileikanna þar sem hann var sonur Júlíusar Guðlaugsonar á Grund, Júlla hana, sem var einhver skemmtilegasti maður í Garðinum á síðustu öld.

Við sem þekktum hann best vitum að gæfa hans var eiginkona hans, Sigríður Brynjólfsdóttir, sem skapaði honum og börnunum hans fallegt heimili og gott líf.

Ég þakka tengdaföður mínum samfylgdina síðastliðin 45 ár.

Gunnar Hámundarson

Häsler.

Kiddi tengdafaðir minn, var um margt sérstakur maður, hann var það sem kallað er af gamla skólanum. Hann hafði gaman að horfa á allt vaxa og dafna. Sjórinn og veiðar voru honum sérstakt áhugamál. Ég fór með honum oft út á sjó og voru það skemmtilegar ferðir. Eitt sinn fórum við á lúðuveiðar 100 króka lúðulóð og átti að leggja á blett fyrir utan Sandgerði. Báturinn var lítill frambyggður bátur sem Kiddi átti ásamt tveimur vinum sínum. Hann var í Kothúsavör uppi á landi og var í sleða sem dreginn var af rafmagnsspili, þetta virkaði vel. Við fórum snemma af stað og vorum komnir á lúðumiðinn um klukkan 10 um morguninn, lögðum lóðina og biðum 2 til 3 tíma. Línan var þung í drætti enda fiskur á hverjum krók, allt risavaxinn steinbítur, ekki ein lúða. Þetta var fyrsti báturinn sem Kiddi átti hlut í. Seinna lét hann ásamt Guðbergi Ólafssyni smíða bát í Hafnarfirði, Björgina, sem þeir gerðu út frá Vogum á net. Ég fór nokkru sinnum með þeim og oftast var fullur bátur af stórþorski og stundum þurfti að fara tvær ferðir, og var allt flatt og saltað þegar komið var í land. Hann talaði oft um þennan tíma.

Kiddi fór á hverju vori í eggjaleit og týndi kríu- og veiðibjölluegg, ég fór stundum með honum með tík sem ég átti hún hét Snotra, og var fljót að finna hreiður og var árangurinn góður. Kiddi kom heim og sótti hana til að hafa með sér, og þegar hún var orðin leið á að bíða fór hún upp á Heiðarbrún og beið eftir að fá að fara á rúntinn með honum.

Við Sigrún fluttum í Fljótshlíðina árið 2000. Kiddi kom og vildi setja niður kartöflur, sem hann gerði og var uppskeran góð. Við keyptum nokkrar kindur og spurði Kiddi mig hvort hann mætti kaupa eina af mér sem var sjálfsagt. Hann valdi flekkótta kind sem hann kallaði Drottningu. Næsta vor komu lömbin og var Drottning sú eina sem var þrílembd, allt gimbrar, hann var mikið montinn með Drottningu sína. Um haustið komu þær allar af fjalli allar stórar og fallegar og ekki mátti slátra neinni þeirra. Þarna eignaðist Kiddi töluverðan fjárstofn á stuttum tíma, því þessar dætur Drottningar voru meira og minna þrílembdar. Hann hafði mikla ánægju af þessum tíma.

Síðustu árin gerði Kiddi út 8 tonna bát sem hét Dísa, hún var á grásleppu og línu, og svo kom makríll og Kiddi lét útbúa á makrílveiðar þá orðinn 80 ára, en hafði ekki heilsu til, samt var hugurinn alltaf að.

Hvíl þú í friði, Kiddi minn, og þakka þér fyrir öll árin sem við áttum saman. Samúðarkveðjur til fjölskyldunnar.

Þinn tengdasonur,

Guðmundur I. Ragnarsson.

Elsku besti afi minn.

Þegar kemur að kveðjustund koma margar minningar upp í hugann frá því ég var lítil stelpa. Að koma til ykkar ömmu Siggu á Hótel Heiðarbrún eins og við kölluðum það, var alltaf svo gott. Þar voru alltaf allir velkomnir og dekraðir upp úr skónum af ykkur. Amma stjanaði við okkur, svo komst þú og bauðst á rúntinn sem endaði oftar en ekki með nammi í poka og bryggjurúnti að skoða bátana.

Eins eru ofarlega í huga allar ferðirnar í heiðina að tína egg á vorin, en þar gátum við eytt heilu dögunum. Þar naust þú þín svo vel og hafðir einstaka hæfileika til að finna út hvar egg væri að finna. Man ég svo vel eftir því þegar ég var lítil þá vildir þú líka leyfa mér að finna egg, þá stóðstu alltaf rétt hjá hreiðrinu og sagðir: „Ég held að það séu egg hér nálægt.“ Ég varð svo spennt að ég sá ekki eggin heldur labbaði ég stanslaust fram hjá þeim og þú hlóst að mér.

Elsku afi, þú varst ótrúlega duglegur og ráðagóður karl. Varst alltaf að vinna eða brasa eitthvað. Þegar ég varð eldri fannst mér þú ótrúlega fyndinn karakter, þú áttir auðvelt með að ná til fólks og sagðir brandara eins og þú fengir borgað fyrir það. Þú varst líka einstaklega barngóður og mjög góður afi. Börnin mín tvö hafa alltaf spurt mikið um langafa en vita að nú ert þú engill á himnum sem fylgist með og passar upp á okkur.

Það er svo skrítið að hugsa til þess að þú sért farinn, að ég eigi aldrei eftir að sjá þig og tala við þig aftur. En mér finnst líka gott að vita til þess að nú sértu kominn á betri stað þar sem þér líður betur. Ég veit að amma og Gúlli hafa tekið vel á móti þér.

Góða ferð, elsku afi minn.

Þín

Sigga Dís Guðnadóttir.

Elsku Gúlli afi.

Ég kallaði þig Gúlla afa af því þú áttir hundinn hann Gúlla, sem þú elskaðir svo mikið, og hann svaf alltaf uppi í hjá þér.

Ég byrjaði sjö ára að koma á Heiðarbrúnina til þín aðra hverja helgi, þegar amma og afi fluttu úr sveitinni og til þín. Þú varst alltaf svo glaður þegar ég kom, og þegar ég fór á sunnudögum þá sagðirðu að ég væri besta stelpa sem hefði komið á Heiðarbrúnina. Þú reyndir mikið að kenna mér margföldunartöfluna, skrifaðir hana niður og varst að láta mig læra hana, þú sagðir að enginn gæti orðið duglegur í lífinu nema kunna margföldunartöfluna.

Þú varst oft svo fyndinn, þegar þú varst sofandi þá gastu talað og talað og þú gast borðað líka sofandi, við amma hlógum og hlógum að þér.

En elsku Gúlli afi, þú varst orðinn veikur og fórst á elliheimili, og ég kom með ömmu að heimsækja þig.

En nú ertu kominn upp til Gúlla þíns, hann hefur örugglega tekið á móti þér.

Ég bið að englarnir passi þig og Gúlla.

Þín langafastelpa

Írena Ósk J.