Tónleikatvenna Hljóðfæraleikararnir Laufey Sigurðardóttir, Domenico Codispoti og Bryndís Halla Gylfadóttir eru meðal þeirra sem koma fram á tónleikum í Mývatnssveit á morgun, skírdag, og á föstudaginn langa.
Tónleikatvenna Hljóðfæraleikararnir Laufey Sigurðardóttir, Domenico Codispoti og Bryndís Halla Gylfadóttir eru meðal þeirra sem koma fram á tónleikum í Mývatnssveit á morgun, skírdag, og á föstudaginn langa. — Morgunblaðið/Golli
Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is „Hugmyndin að þessari tónlistarhátíð hefur haldist óbreytt frá upphafi. Markmiðið hefur ætíð verið að bjóða upp á tvenna tónleika með sitt hvorri efnisskránni sem saman mynda þó eina heild.

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

„Hugmyndin að þessari tónlistarhátíð hefur haldist óbreytt frá upphafi. Markmiðið hefur ætíð verið að bjóða upp á tvenna tónleika með sitt hvorri efnisskránni sem saman mynda þó eina heild. Mín ósk er því sú að tónleikagestir mæti á hvora tveggja tónleikana til að fá heildarmyndina,“ segir Laufey Sigurðardóttir fiðluleikari, sem í 20. sinn stendur fyrir tónlistarhátíðinni Músík í Mývatnssveit um bænadagana. Fyrri tónleikar hátíðarinnar verða í félagsheimilinu Skjólbrekku á morgun, skírdag, kl. 20 og þeir seinni í Reykjahlíðarkirkju föstudaginn langa kl. 21. Miðar eru seldir við innganginn á báðum stöðum og veitingar í hléi á tónleikunum í Skjólbrekku.

Í ár hefur Laufey fengið til liðs við sig Domenico Codispoti píanóleikara, Bryndísi Höllu Gylfadóttu sellóleikara, Kristin Sigmundsson bassa og Mývetningana og söngvarana Stefán Jakobsson úr Dimmu og Margréti Hildi Egilsdóttur.

Sérstakur fengur

„Efnisskráin fer ávallt eftir flytjendum hverju sinni. Reynslan hefur sýnt að það er alltaf best þegar flytjendur koma með hugmyndir að verkum sem þau brenna fyrir. Á skírdag munum við flytja píanótríó eftir Johannes Brahms. Verkið er valið af því að við höfum þennan dásamlega píanista og gaman að leyfa honum að njóta sín,“ segir Laufey og vísar þar til Codispoti sem lagt hefur leið sína til Íslands reglulega síðasta hálfa annan áratuginn með tilheyrandi tónleikahaldi. „Brahms tríóið er sérlega skemmtilegt áheyrnar og mjög gott dæmi um afburðatónsmíð sem gefur flytjendum kost á að sýna margar ólíkar hliðar,“ segir Laufey og tekur fram að eftir hlé syngi Kristinn sönglög eftir m.a. Hugo Wolf og Richard Strauss, íslensk sönglög og aríu úr Don Giovanni eftir W.A. Mozart við píanóleik Codispoti.

„Þetta er í annað sinn sem Codispoti kemur fram á Músík í Mývatnssveit. Það er sérstakur fengur að hann skuli leggja leið sína norður í land, því hann er píanóleikari í sér flokki. Það er ekki amalegt að geta boðið Kristni upp á svona frábæran meðleikara,“ segir Laufey og tekur fram að sérstaklega ánægjulegt sé einnig að Kristinn hafi átt heimangengt. „Á umliðnum árum hafa margir heimamenn beðið mig um að fá Kristin norður,“ segir Laufey og tekur fram að sér þyki ávallt vænt um það þegar heimamenn séu duglegir að mæta á tónleika hátíðarinnar.

Algjör perla

Að sögn Laufeyjar hefjast tónleikarnir í Reykjahlíðarkirkju föstudaginn langa ekki fyrr en kl. 21. „Tímasetningin miðast við bændur í sveitinni, þannig að þeir nái að klára fjósverkin fyrir tónleika, en einnig við þá fjölmörgu sem nýta daginn til að ganga kringum Mývatn, fara í böðin og fá sér að borða áður en þeir mæta á tónleikana,“ segir Laufey sem leika mun fiðlusónötu eftir Mozart á tónleikunum. „Þetta er þekktasta fiðlusónata hans og hún er algjör perla. Flutt verða íslensk sönglög eftir Sigvalda Kaldalóns og Karl Ottó Runólfsson. Þórður Magnússon hefur útsett lög eftir Magnús Blöndal Jóhannsson og Árna Thorsteinsson fyrir píanótríó. Bryndís Halla leikur úr fyrstu sellósvítu eftir J.S. Bach.

Ég er þannig með einvala lið listamanna með mér. Þau eiga öll annríkt og því er ég þeim mjög þakklát fyrir að gefa sér tíma til að koma fram í Mývatnssveit án nokkurrar vissu um laun,“ segir Laufey og tekur fram að hún sé einnig þakklát þeim fyrirtækjum og sjóðum sem styrkja tónlistarhátíðina frá ári til árs. „Án þeirra væri þetta ekki hægt,“ segir Laufey að lokum.