Apótek Lyfjahópur Samtaka verslunar og þjónustu segir lausasölulyf eiga að vera seld í verslunum.
Apótek Lyfjahópur Samtaka verslunar og þjónustu segir lausasölulyf eiga að vera seld í verslunum. — Morgunblaðið/Friðrik
Magnús Heimir Jónasson mhj@mbl.is Heildarendurskoðun á lyfjalögum, sem meðal annars miðar að sölu lausasölulyfja í verslunum, verður ekki tekin fyrir á þessu þingi eins og stóð til.

Magnús Heimir Jónasson

mhj@mbl.is

Heildarendurskoðun á lyfjalögum, sem meðal annars miðar að sölu lausasölulyfja í verslunum, verður ekki tekin fyrir á þessu þingi eins og stóð til. Frumvarpið var lagt fram á síðasta þingi og átti að leggja fram endurskoðað frumvarp í mars síðastliðnum en því hefur verið frestað fram á haust. Í þingmálaskrá núverandi þings er frumvarp til lyfjalaga efst á lista heilbrigðisráðuneytisins, en núgildandi lyfjalög hafa aldrei sætt heildarendurskoðun frá gildistöku þeirra árið 1994. Að sögn ráðuneytisins þurfti frumvarpið að fara aftur í tilkynningarferli og þarf heilbrigðisráðherra að leggja það fram að nýju en ekki er stefnt á að gera neinar grundvallarbreytingar á frumvarpinu.

Vilja nálgast Norðurlöndin

Í frumvarpinu er mælt fyrir um að almennar verslanir fái að selja ólyfseðilsskyld lyf. „Þetta er í sjálfvali í apótekum og fæst í almennum verslunum á Norðurlöndunum. Okkar spurning er af hverju regluverkið er öðruvísi hér en annars staðar á Norðurlöndunum, þar sem þau eru í sjálfvali í apótekum,“ segir Brynjúlfur Guðmundsson, sem er í forsvari fyrir lyfjahóp Samtaka verslunar og þjónustu. Hann segir að velferðarráðuneytið leggi vanalega mikla áherslu á að regluverk sé svipað og annars staðar á Norðurlöndum og nefnir sér til stuðnings frumvarp um tóbaksvarnir í tengslum við rafsígarettur. „Þar er lögð áhersla á að skoða hvernig regluverkið er alls staðar á Norðurlöndunum. Af hverju á þetta ekki að vera eins með lyfin ef við erum að gera þetta í öðrum flokkum?“

Aukin samkeppni lækkar verð

Brynjúlfur segir eðlilegt að apótek eigi að vera eini aðilinn sem selur lyfseðilsskyld lyf en ekki sé þörf á að apótek séu eini aðilinn með lausasölulyf. Í 5.790 manna netkönnun Gallup árið 2016, um lausasölulyf og ráðgjöf, kom í ljós að 93,3% þeirra sem keyptu lausasölulyf í apótekum fengu ekki ráðgjöf eða fannst það ekki skipta máli. Brynjúlfur segir að með því að koma lyfjunum í verslanir sé hægt að lækka verð með aukinni samkeppni. Í umsögn Alþýðusambands Íslands um frumvarpið er tekið í svipaðan streng, og frumvarpið sagt stuðla að hagkvæmri dreifingu lyfja á grundvelli eðlilegrar samkeppni ásamt því að Alþýðusambandið fagnar rýmkum heimilda til þess að selja lausasölulyf utan hefðbundinna lyfjabúða til að auka aðgengi fólks.

Sjónvarpsauglýsingar lyfja

Nýlega var rýmkað til í lyfjalöggjöf á Íslandi og voru sjónvarpsauglýsingar fyrir lausasölulyf leyfðar. Lyfjastofnun ríkisins segir að ekki sé hægt að meta það að svo stöddu hvaða áhrif slíkar auglýsingar hafi haft á sölu lyfja, vegna þess að of stutt sé síðan slíkt auglýsingar voru leyfðar. Lyfjastofnun tekur enga afstöðu til frumvarpsins en tók fram í svörum sínum við Morgunblaðið að aukið aðgengi yki líklega sölu og mikilvægt væri að gera greinarmun á lyfjum og annarri vöru m.t.t. til leiðbeininga. Lyfjastofnun segir jafnfram að Norðurlandaríkin hafi að undanförnu verið að draga úr lausasölu lyfja í almennum verslunum.