Þýska kaupskipið Minden Það hefur legið á hafsbotni norðvestur af Færeyjum síðan í lok september 1939.
Þýska kaupskipið Minden Það hefur legið á hafsbotni norðvestur af Færeyjum síðan í lok september 1939.
Hjörtur J. Guðmundsson hjortur@mbl.is Þýska skipafélagið Hapag-Lloyd AG hefur ekki upplýsingar um farm kaupskipsins Minden, sem sökkt var norðvestur af Færeyjum í lok september 1939 eftir að síðari heimsstyrjöldin var hafin.

Hjörtur J. Guðmundsson

hjortur@mbl.is

Þýska skipafélagið Hapag-Lloyd AG hefur ekki upplýsingar um farm kaupskipsins Minden, sem sökkt var norðvestur af Færeyjum í lok september 1939 eftir að síðari heimsstyrjöldin var hafin. För kaupskipsins var stöðvuð af breska beitiskipinu Calypso og sökkti áhöfnin skipinu fremur en að það félli í hendur Breta, samkvæmt skipun frá þýskum stjórnvöldum.

Skipafélagið er arftaki félagsins Norddeutscher Lloyd, sem lét smíða Minden árið 1921 og gerði skipið út þar til það hvarf í hafið. Saga skipafélagsins er löng, en Norddeutscher Lloyd var upphaflega stofnað árið 1857 og átti ríkan þátt í að gera borgirnar Bremen og Bremerhaven í Þýskalandi að þeim mikilvægu viðskiptamiðstöðvum sem þær hafa verið síðan.

Farmur Minden í hinstu för skipsins frá Rio de Janeiro í Brasilíu til Þýskalands, þangað sem það komst aldrei, hefur vakið athygli að undanförnu vegna veru rannsóknarskipsins Seabed Constructor hér við land, en fréttir herma að skipið ætli að freista þess að ná verðmætum upp úr flaki þýska kaupskipsins. Hver þau verðmæti kunna að vera er hins vegar óljóst. Seabed Constructor lagði frá höfn við Skarfabakka í gær.

Samkvæmt upplýsingum frá Hapag-Lloyd er ástæðan fyrir því að félagið hefur ekki upplýsingar um farm Minden þegar skipið sökk sú að mikið af gögnum Norddeutscher Lloyd hafi eyðilagst þegar höfuðstöðvar félagsins brunnu nær til grunna á árum síðari heimsstyrjaldarinnar. Miklar loftárásir voru gerðar á Bremen í stríðinu af Bretum og Bandaríkjamönnum.